131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:45]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður heldur venju sinni og finnur rót efnahagsvandans á Íslandi í allsnægtum öryrkjanna. Það er auðvitað sjálfsagt, hv. þingmaður, að ræða breytingar á atvinnuháttum, aukinn geðheilbrigðisvanda og annað það margvíslegt sem veldur fjölgun öryrkja. En ég bið hv. þingmann um að stunda ekki þá umræðu undir formerkjum misnotkunar og halda þannig órökstuddum dylgjum að þúsundum Íslendinga, öryrkjum sem hér búa við lágmarksframfærslu og eru ekki að misnota sér eitt eða neitt til að njóta hennar þó að auðvitað sé alltaf eitthvað um misnotkun í félagslegum kerfum að ræða.

Þingmaðurinn er auðvitað að beina athygli sinni frá því að í þetta frumvarp vantar 500 millj. upp á drengskaparloforð stjórnarflokkanna til þessa fátæka fólks. Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann: Hver er útgjaldaaukningin til utanríkisþjónustunnar sem við finnum í þessu frumvarpi svo við höfum forgangsröðun hv. þingmanns sem er svo annt um samstöðina og samhjálpina í landinu.