131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:47]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki blanda mér í þær deilur sem komið hafa upp milli Öryrkjabandalags Íslands og hæstv. heilbrigðisráðherra. Mér finnst það mjög óviðeigandi í alla staði. Ég vil ekki gera það og hann er fullfær um að gera það sjálfur. Hins vegar liggja fyrir samþykktir ríkisstjórnarinnar um framlög til félagsmála. Það liggur allt saman skýrt fyrir og ég frábið mér því að blandast inn í þær umræður.

Hins vegar er það þannig og ég fagna því að hv. þm. Helgi Hjörvar tekur þó þannig í þessi mál núna. Það er nauðsynlegt að átta sig á því hvað við erum að gera. Hér hafa verið óvænt útgjöld sem við köllum svo. Við höfum verið að setja peninga inn í þessa málaflokka umfram það sem við ætluðum. Svo hefur komið í ljós að þetta er tiltölulega stöðug aukning sem allir sem ég þekki telja óeðlilega. Í allri umræðu sem á sér stað, bæði á Norðurlöndum og Íslandi, er talið óeðlilegt að við séum með 7% aukningu í fjölda öryrkja á hverju ári. (Forseti hringir.) Það eru allir sammála um það sem ég þekki.