131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[15:49]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit stundum ekki hvort ég á að hlæja eða gráta þegar hinir ágætu virðulegu þingmenn stjórnarandstöðunnar tala um aðhaldsleysi í ríkisfjármálum. Við höfum vissulega átt við það að stríða að fjárlög hafa reynst hærri en við höfum gert ráð fyrir og undir öllum kringumstæðum hefur langstærsta og mesta hækkunin og frávikið frá því sem við höfum verið að fást við legið í launaþætti ríkisins. Það er sá þáttur sem við höfum átt erfiðast með að meðhöndla. Það er sá þáttur sem við höfum ekki náð tökum á. Ég hef margsinnis árum saman farið yfir að það væri hinn eini sanni akkillesarhæll íslenskra ríkisfjármála. Svo kemur stjórnarandstaðan og segir réttilega að það vanti ýmislegt upp á að við höfum nógu sterk tök á ríkissjóði. Það er alveg hárrétt en þá skulum við fara yfir hvað hefur farið úrskeiðis. Það sem hefur farið úrskeiðis líka er að við höfum látið undan þrýstingi um ýmiss konar velferðarmál, eðlilegum kröfum kannski en þetta er sagan. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig.