131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:13]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér hafa komið fram óskir um að fundi verði frestað og menn ræði saman um framhald málsins. Ég tel alveg sjálfsagt að fjárlaganefnd hittist og fari yfir málin eins og þau liggja núna fyrir með tilliti til þess sem komið hefur fram hjá Seðlabankanum í ritinu Peningamálum og í ræðum sem hér hafa verið fluttar m.a. af forustumönnum ríkisstjórnarinnar í fjárlaganefnd. Ég tel fullt tilefni til að ræða þetta mál og sé ekki hvaða hætta er fólgin í því, hæstv. forseti, þó við frestum þessum fundi þannig að málin verði rædd af forseta þingsins og þingflokksformönnum. Auðvitað vonumst við til þess að niðurstaðan af þeim fundi verði sú að boðað verði til fundar í fjárlaganefnd þar sem farið yrði yfir þessi mál. Það verður þá að ráðast hvort menn þurfa fleiri en einn fund til að tala um málin og fara yfir þau þar. En ég sé ekki að neitt sé í hættu með afgreiðslu fjárlaganna þó við tækjum 1–2 daga í að fara yfir þessi mál miðað við núverandi forsendur og ræða þau og skoða hvaða leiðir menn vilja fara ef þeir vilja breyta einhverju eða þá að færa rök fyrir því og hlusta á rök fyrir því að hafa stöðuna algerlega óbreytta. Ég held að fullt tilefni sé til að skoða málin og ég sé ekki að neitt sé í hættu þó það mundi jafnvel dragast fram á þriðjudag að klára það að afgreiða fjárlögin. Það hefur nú oft verið sagt um þriðjudaginn að hann sé til þrautar. Menn skulu þá klára þrautina þá.