131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:15]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þær óskir að þessari umræðu verði frestað. Ég tel að þær séu prýðilega vel rökstuddar og ígrundaðar. Það má segja að það hafi verið gáleysi og ankannalegt að setja þessa umræðu á, 3. umr. um fjárlög, strax 3. desember og degi eftir að Seðlabankinn birti síðasta ársfjórðungslegt mat sitt á stöðu efnahagsmála. Það er fáránlegt að hafa ekki tíma til að skoða það álit og taka það fyrir í þingnefndum og stilla svo fjárlögin af í lokin með hliðsjón af nýjustu þjóðhagslegum upplýsingum og efnahagslegum upplýsingum þegar þær liggja fyrir.

Þar á ofan bætist það við að upplýst hefur verið að efnahags- og viðskiptanefnd sem á að sjá um að fara yfir þann þátt málsins, tekjuforsendur fjárlagafrumvarpsins og þjóðhagslegar aðstæður þegar verið er að loka fjárlögunum, hefur nánast ekkert komið að því máli. Það kom ekkert álit frá henni við 2. umr. og ég hef ekki orðið mikið var við hana heldur á ferðinni í þessu máli enda er kannski hv. formaður nefndarinnar, Pétur Blöndal, uppteknari við annað en að stjórna fundum í efnahags- og viðskiptanefnd.

Svo gerist það að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, kemur og fer mikinn eins og stundum þegar sá gállinn er á honum og ræðst á Seðlabankann fyrir aðgerðir hans. Nú get ég að mörgu leyti tekið undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að harkaleg vaxtahækkun Seðlabankans er engin gleðitíðindi með þeim áhrifum sem hún virðist vera að hafa á gengið. En hvað á Seðlabankinn að gera? Seðlabankinn er að bregðast við meðal annars og ekki síst efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar þannig að það er verið að hengja bakara fyrir smið þegar verið er að skamma ræfils Seðlabankann sem aleinn er að reyna að róa á móti verðbólgunni og þenslunni og verður að fara út í harkalegri aðgerðir en ella vegna skattalækkana ríkisstjórnarinnar, vegna stóriðjustefnunnar og af fleiri slíkum ástæðum. Ég held að hæstv. forsætisráðherra eigi að láta sjá sig við umræðuna, yfirmaður efnahagsmála í ríkisstjórninni og undir hvern Seðlabankinn heyrir, enda er það allt í lagi, herra forseti, að það sjáist nú eins og einn og einn ráðherra — ég ætla nú ekki að bæta því viðhengi við sem mér datt í hug (Gripið fram í: Jón Kristjánsson er í húsinu.) til að vera við umræðuna þegar aðstæður í efnahagsmálum eru líka þessar sem raun ber vitni. Ég fer því fram á það í öllu falli að ef forsætisráðherra og þá fjármálaráðherra láta ekki sjá sig við umræðuna þá verði umræðunni frestað þegar af þeim ástæðum. (Gripið fram í.) Þar á ofan eru fullar ástæður til þess að þingnefndirnar taki málið aftur til sín. Það liggur ekkert á. Við höfum nógan tíma og hægur vandinn að afgreiða fjárlögin þegar líður á næstu viku.