131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:18]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Að sjálfsögðu gengur umræðan um fjárlögin fram eins og lög gera ráð fyrir. Henni lýkur í nótt og atkvæðagreiðsla verður um hana á morgun. Þannig er áætlunin hjá þinginu.

Hins vegar get ég verið mjög sammála mörgum hv. þingmanninum sem hefur komið hér og sagt að ástæða sé til þess fyrir þingmenn, fyrir forustumenn þingsins og flokkana, að setjast niður og ræða efnahagsmál. Það held ég að sé mjög brýnt. Seðlabankinn (Gripið fram í: Þá erum við sammála.) er að knýja fram gengi sem mér er sagt að þeir jafnvel láti sér detta í hug að geti endað í vísitölunni 110 þegar við erum að afgreiða fjárlög þar sem forsendurnar eru 125. (Gripið fram í: Brostin ...) Þetta er gríðarlegur munur og varðar íslenskt atvinnulíf stórkostlega, samkeppnishæfni útflutningsframleiðslunnar og þeirrar framleiðslu sem á hér í samkeppni við innflutning. Þetta er alvarlegur hlutur.

Menn átelja mig, virðulegi forseti, fyrir að ráðast á Seðlabankann og spyrja: Hvað átti vesalings Seðlabankinn að gera? Þetta er nú engin vesalings Seðlabanki, virðulegi forseti. Seðlabankinn hefur mjög mörg tæki. Seðlabankinn hefur setið og aðhafst ekkert þegar íslenskir bankar hafa á undanförnum mánuðum, ausið inn í þetta þjóðfélag milli 80 og 100 milljörðum kr. til þess að lána einstaklingum, til þess að fjármagna kaup einstaklinga. Þeir hafa lánað yfir 7 þúsund einstaklingum milli 80 og 100 milljarða kr. Á þessum tíma situr bara Seðlabankinn og aðhefst ekkert. Auðvitað hefur hann í valdi sínu bindiskylduna. Hann hefur hana ótakmarkaða í valdi sínu. Í stað þess minnkuðu þeir fyrir ári bindiskylduna úr 4% í 2% og aðhafast svo ekkert. Svo koma menn með svona kjánatal og segja að það sé vegna þess að afgangur af ríkissjóði sé ekki nægur að verðbólga sé að fara úr böndunum. Hvaða verðbólga er að fara hér úr böndunum? Það hefur margsinnis verið greint. Það er hækkun á fasteignaverði og það er hækkun á olíu og eldsneyti. Verðbólgan skiptir okkur máli ef hún er hærri hér en í nágrannalöndunum og samkeppnislöndunum. Olíuhækkanir erlendis skipta íslenskt efnahagslíf engu, koma engu við. Þær ganga yfir heiminn allan og breyta engu um samkeppnisstöðuna.

Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir, virðulegi forseti. Við klárum að sjálfsögðu fjárlagafrumvarpið. En það er ærin ástæða fyrir alla að tala og fara í gegnum stöðu íslenska atvinnulífsins vegna þess að atvinnulífið er í verulegri hættu og því er (Forseti hringir.) ógnað með þeim ráðstöfunum sem Seðlabankinn telur sig einan geta notað.