131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:22]

Jón Gunnarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni fyrir að staðfesta í ræðu sinni að veigamikil forsenda í fjárlagafrumvarpinu eins og gengismál sé brostin.

Það vakti vonbrigði mín þegar ég heyrði hæstv. forseta kveða upp úrskurð sinn um það hvort fresta ætti umræðu. Nú er reyndar ekki í fyrsta skipti þegar ég stend í ræðustól og horfi fram á hvernig mál fara fram í þinginu að ég velti fyrir mér hvort hæstv. forseti þingsins sé forseti þingmanna. Ég hélt að hæstv. forseti ætti að gæta hagsmuna þingmanna gagnvart framkvæmdarvaldinu og jafnframt að halda í heiðri þingsköp Alþingis.

Aðeins til að bæta kannski í þann sarp sem forseti hefur þegar hann veltir fyrir sér hvort hann eigi að verða við þessari sjálfsögðu ósk okkar sem hér komum upp þá ætla ég að fara yfir eitt mál í viðbót þar sem í raun er búið að brjóta þingsköp á okkur sem störfum í fjárlaganefnd. Í 25. gr. þingskapa segir, með leyfi forseta:

„Fjárlaganefnd á rétt á að fá þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana sem óska eftir framlögum úr ríkissjóði. Enn fremur er þeim stofnunum ríkisins, er fást við efnahagsmál, skylt að veita nefndinni upplýsingar og aðstoð sem hún þarf á að halda við afgreiðslu þingmála.“

Ég vakti athygli á því við 3. umr. fjáraukalaga að okkur hefðu ekki borist upplýsingar sem við báðum um í tengslum við fjárlagavinnuna. Við óskuðum eftir stöðu stofnana ríkisins miðað við 30. september, þ.e. hver hún væri og einnig óskuðum við eftir áætlaðri lokastöðu þessara sömu stofnana í lok ársins. Þær upplýsingar hafa ekki borist okkur enn þá og hér er verið að brjóta á okkur þingsköp. Ég ætla að vona að hæstv. forseti hafi dug í sér að verja okkur þingmenn fyrir því að verið sé að brjóta á okkur þingsköp.

Einnig óska ég eftir því að hæstv. forseti taki til sjálfstæðrar skoðunar hvernig fjárlögin fóru í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd og það að við skulum vera hér við 3. umr., eftir að Seðlabankinn heimsótti nefndina í gær, með eina álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem segir að spá um þjóðhagsforsendur hafi ekki breyst frá framlagningu frumvarpsins. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni þá var ég á þessum fundi efnahags- og viðskiptanefndar. Ég spurði hv. formann nefndarinnar hvort ekki ætti að koma nýtt álit í ljósi nýrra upplýsinga (Forseti hringir.) og hann taldi þess ekki þurfa. Segir þetta ekki allt sem þarf, hæstv. forseti?