131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:29]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Okkur hér, alla vega þingmönnum stjórnarandstöðunnar, er nokkur vandi á höndum. Hér hefur komið fram, einkum af hálfu talsmanns fjárlaganefndar, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að forsendur fyrir fjárlögum séu gersamlega brostnar. Þetta hefur komið fram mjög skýrt og við höfum á það bent að það sé skynsamlegt við þessar aðstæður að skoða frekar forsendur fjárlaga og hvort ástæða sé til að ræða þær frekar því að fjárlögin eru nokkuð sem við eigum að taka alvarlega. Við eigum að afgreiða þetta frá okkur á þann hátt að sómi sé að og þannig að við höfum trú á því að við séum á réttri leið. Látum liggja á milli hluta hver hafi rétt fyrir sér í því hvers vegna forsendur fjárlaga eru brostnar, hvort það sé sökum þess að Seðlabankinn hafi ekki hundsvit á efnahagsmálum og sé að grípa til aðgerða sem grafi undan útflutningsgreinunum eða hvort aðhaldsleysi ríkisstjórnarinnar í fjárlagagerðinni leiði til þess að forsendur eru brostnar eða hvort það sé vegna þess að bankarnir hafa farið í útlán langt um fram það sem eðlilegt þykir. Látum liggja á milli hluta hver er ábyrgur fyrir þessari stöðu. Kjarninn er hins vegar sá, hvernig sem við lítum á málin, að forsendur fjárlaga virðast gersamlega brostnar hvað varðar það sem fram kemur í ræðu talsmanns fjárlaganefndar og einnig það sem fram kemur í þjóðhagsspá Seðlabankans. Á þessum forsendum leggja þingmenn stjórnarandstöðunnar til að við hægjum aðeins á okkur og skoðum það frekar til þess að tryggja að fjárlagafrumvarpið verði þannig úr garði gert að það sé líklegt til þess að fara nálægt raunveruleikanum. (Gripið fram í: Já.) Þá segir hæstv. forseti að ekki sé ástæða til að skoða þetta frekar.

Kannski er það bara þannig að þingmenn minni hlutans á hinu háa Alþingi geta lítið annað gert en að benda á þessar forsendur og benda á þessar breytingar. En þá er einnig ljóst að þegar við verðum komin inn í næsta ár og fjárlagafrumvarpið reynist hjóm eitt hvað varðar tekjur og gjöld þá er það a.m.k. ekki vegna þess að minni hlutinn hafi ekki bent á að þessar forsendur hafi verið brostnar heldur vegna þess að meiri hlutinn neitaði að hlusta á það. Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir í umræðunni.