131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:37]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tel alveg augljóst að fyllilegar ástæður séu til að gert verði hlé á þingfundi og að þingflokksformenn fari yfir stöðu málsins og ræði hvort ekki sé orðið brýnt og eðlilegt að málið fari aftur til fjárlaganefndar í fyrsta lagi.

Í öðru lagi er líka sjálfsagt að fara yfir það hvort ekki sé eðlileg og sjálfsögð krafa að ráðherrar efnahagsmála, sérstaklega hæstv. forsætisráðherra sem Seðlabanki heyrir undir og hæstv. fjármálaráðherra sem er ábyrgur fyrir framkvæmd fjárlaganna, séu ekki við umræðuna. Mér finnst það reyndar svo sjálfsagt að það ætti ekki að þurfa að hafa orð á því, ekki hvað síst í ljósi þess að í gærkvöldi með útkomu skýrslu Seðlabankans og mati hans á stöðu efnahagsmála og forsendum þeirra fyrir næstu mánuði og ár, þær forsendur eru svo gjörólíkar því sem fjárlagafrumvarpið er unnið á, þannig að það er vanvirða að mínu mati við þingið ef við afgreiðum hér fjárlög án þess að farið sé yfir forsendurnar upp á nýtt.

Við höfum hér orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem með sínum heiðarlega hætti lýsti skoðunum sínum á aðgerðum Seðlabankans, þó að við séum ekki sammála að öllu leyti að Seðlabankinn sé sökudólgurinn, auðvitað er það efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar sem er það, en hv. þingmaður dró enga dul á að þar væru kynntar allt aðrar forsendur en fjárlagafrumvarpið byggir á. Þó er þetta eini aðilinn, opinber aðili, utan fjármálaráðuneytisins sem fjallar um efnahagsmál eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður.

Því er það eindregin krafa og ég styð þá kröfu afar eindregið, að gert sé hlé á þingfundinum, hlé sé gert á meðferð fjárlagafrumvarpsins, það fari aftur til þingnefndar, við fáum Seðlabankann til fundar við fjárlaganefnd þar sem farið verður yfir þau atriði sem Seðlabankinn og fjárlaganefnd vilja ræða þar, en það er alveg gjörólíkur grunnur sem þeir leggja upp með.

Kannski sjá menn að eðlilegt væri og sjálfsagt að hætta við þessar vitlausu skattalækkanir, það væri ávinningur út af fyrir sig ef það næði fram. En að vera hér svo í kross við að afgreiða fjárlagafrumvarp (Forseti hringir.) á allt öðrum forsendum en Seðlabankinn vinnur á eru fáránleg vinnubrögð, herra forseti.