131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[16:46]

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. forsætisráðherra kemur og heiðrar Alþingi og umræðuna með nærveru sinni.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hlustaði hann ekki á ræðu varaformanns fjárlaganefndar áðan sem talaði um aðgerðir Seðlabankans? Ég hefði talið þörf á því að hæstv. forsætisráðherra hlustaði á þann lestur um aðgerðir Seðlabankans.

Hæstv. forsætisráðherra talar um það að fjárlög séu byggð á efnahagsspá fjármálaráðuneytisins. Það er rétt. Þar er talað um gengisvísitölu 125. En hvar er gengisvísitalan í dag við lokun? Hún er 115.

Sé það rétt sem Seðlabankinn hefur sagt gæti það farið í 110 krónur. Það getur vel verið að hæstv. forsætisráðherra geti þá glaðst yfir meiri afgangi í ríkissjóði. En hver verður staða útflutningsatvinnuveganna ef þetta heldur svona áfram?

Virðulegi forseti. Fjármálastefna ríkisstjórnarinnar byggist á mikilli eyðslu og tekjur ríkissjóðs einnig. Síðan flæðir gjaldeyrir inn í landið, styrkir krónuna o.s.frv.

Við erum stödd í vítahring. Það er mjög alvarlegt mál, virðulegi forseti, að hæstv. forsætisráðherra komi hér rétt í lokin og láti eins og ekkert sé að en talar um að það geti vel verið að forsendur fjárlaga séu brostnar. Á þá ekki að fara yfir það strax?

Virðulegi forseti. Má ég benda hæstv. forsætisráðherra á að í dag er dreift stjórnarfrumvarpi, á sama degi og við ræðum um fjárlög, þar sem gert er ráð fyrir 130–150 millj. kr. útgjöldum á næsta ári vegna Tækniháskóla. Ég vil spyrja hæstv. forseta þingsins og óska eftir úrskurði um það hvort það sé ekki skylda að taka það stjórnarfrumvarp sem hér hefur verið lagt fram inn í fjárlögin, þótt þar sé lítil tala miðað við margt annað.

Mér finnst, virðulegi forseti, að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn eigi að sýna Alþingi þá virðingu að senda fjárlögin, sem hér eru að falla eins og spilaborg, til fjárlaganefndar og fara betur yfir þau. Það er engin skömm að því að skoða hlutina eftir þeim ábendingum sem m.a. hafa komið frá Seðlabankanum. Það er nauðsynlegt að kíkja í þennan jólapakka sem á að setja inn í skrautumbúðir en verður kannski áður en jólin ganga í garð orðinn hálfgerður fúlpakki.