131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:58]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það gerir nú ekki mikið til þó að hæstv. utanríkisráðherra botni ekki mikið í málflutningi mínum en hann þarf helst að botna í sínum eigin málflutningi. (Gripið fram í: Ertu að tala um forsætisráðherra?) Hæstv. forsætisráðherra. Ég fékk lítil svör við því hvernig hæstv. forsætisráðherra metur þau ruðningsáhrif sem stóriðjufjárfestingarnar og skattalækkanirnar hafa og Seðlabankinn kemur að í inngangsorðum sínum varðandi efnahagsmálin.

Hæstv. forsætisráðherra sem og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gera ummæli mín í sambandi við kjarasamninga grunnskólakennara að umtalsefni. Ég sagði tvennt um þá samninga, að ég fagnaði þeirri samstöðu sem kennarar hefðu sýnt í baráttu sinni og að ég vonaði að barátta þeirra yrði öðru láglaunafólki í landinu hvatning til þess að berjast fyrir betri kjörum. Ég stend við þau ummæli og skammast mín ekki mikið fyrir þau. Skattalækkanir sem gagnast fyrst og fremst hinum tekjuhæstu koma ekki í sama stað niður og kjarabætur handa láglaunafólki. Og það að halda tekjunum inni hjá ríkissjóði og t.d. greiða með meiri afgangi niður erlendar skuldir eða borga inn á lífeyrisskuldbindingar væri ábyrg efnahagsstjórn (Forseti hringir.) en ekki það sem hæstv. ríkisstjórn stendur fyrir.