131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[17:59]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Eins og í mörgum öðrum málum er ég algjörlega ósammála hv. þm. í skattamálum. Það liggur alveg ljóst fyrir að þær skattalækkanir sem ráðgert er að framkvæma með þeim frumvörpum sem hér hafa verið flutt koma millitekjufólki og fjölskyldufólki sérstaklega til góða, einmitt fólki sem er með mestu greiðslubyrðina, einmitt fólki sem stjórnarandstaðan hafði sem mestar áhyggur af í umræðunni í gær. En það er einhvern veginn svo með stjórnarandstöðuna að það er eitt í dag og annað á morgun. Það er ekki hægt að meta stöðu fólks eingöngu út frá tekjum. Það verður líka að taka tillit til þess hvaða greiðslubyrði fólkið hefur, og það er það sem stjórnarandstaðan virðist ekki geta gert.