131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:00]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Öflug velferðarþjónusta kemur líka þessu sama fólki til góða og ekki síður. Það er líka í þágu alls almennings í landinu að efnahagsstjórnin sé styrk. Það væri skynsamleg ráðstöfun við núverandi efnahagsaðstæður að halda þessum tekjum hjá ríkinu, a.m.k. að verulegu leyti, og nota þá meiri afgang á ríkissjóði til þess að greiða niður erlendar skuldir til mótvægis við þá miklu skuldaaukningu sem á sér stað annars staðar eða borga inn á lífeyrisskuldbindingar hins opinbera í framtíðinni. Með því hefðu menn jákvæð áhrif á hagkerfið. Þetta væri hvort tveggja í senn skynsamleg ráðstöfun í hagstjórnarlegu tilliti og kæmi öllum almenningi til góða í formi sterkari stöðu þegar fram líða stundir.

Hæstv. ráðherra sér enga ástæðu til að endurmeta forsendur fjárlagafrumvarpsins og segir að það hafi aldrei verið gert vegna þess að menn hafi alltaf byggt á einhverjum gömlum þjóðhagsáætlunum. En það er heldur ekki á hverjum degi, hæstv. forsætisráðherra, sem Seðlabankinn rýkur til rétt fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga og hækkar stýrivexti í einu stökki um heilt prósent.