131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:02]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ýmislegt í ræðu hæstv. forsætisráðherra sem ástæða væri til að gera athugasemdir við en það gefst ekki mikill tími til þess í þessu andsvari.

En eitt vakti sérstaka athygli mína. Hæstv. forsætisráðherra lýsti yfir því að það hefði ekkert með sjálfstæði Mannréttindaskrifstofu að gera að hún þyrfti að sækja um framlög til tiltekinna ráðherra í stað þess að hún fengi það beint af fjárlögum eins og var hér áður. Nú hefur það komið fram í fjölmiðlum að hæstv. forsætisráðherra, þáverandi utanríkisráðherra, lagði það sérstaklega til að breytt yrði frá því sem áður var að framlög kæmu frá dómsmálaráðuneytinu heldur kæmu þau beint frá Alþingi. Því spyr ég hæstv. ráðherra, sem lýsti því yfir áðan að þetta hefði ekkert að gera með sjálfstæði stofnunarinnar: Hvað hefur breyst frá því að hann lýsti því yfir, þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, að sjálfstæði Mannréttindaskrifstofunnar fælist í því að hún (Forseti hringir.) þyrfti ekki að eiga framlög sín beint undir ráðherra?