131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:04]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að reyna að kalla eftir var hvað hefði breyst í málflutningi hæstv. utanríkisráðherra sem hélt því fram og haft hefur verið eftir honum í fjölmiðlum að til þess að tryggja sjálfstæði skrifstofunnar yrðu að koma framlög beint frá Alþingi en ekki í gegnum ráðuneytin. Þetta hefur verið haft eftir hæstv. ráðherra í fjölmiðlum og það er alveg þveröfugt við það sem hann hefur sagt hér. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. ráðherra um hvað hafi breyst og í öðru lagi hvort hann muni sjálfur beita sér fyrir því áður en fjárlögin verða afgreidd frá hinu háa Alþingi að Alþingi ákveði framlög til skrifstofunnar beint. Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir því að hæstv. forsætisráðherra hefur lýst því yfir að það skipti miklu um sjálfstæði skrifstofunnar að framlög komi beint frá Alþingi. (Forseti hringir.) Því spyr ég: Hvað hefur breyst?