131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:06]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í kosningabaráttunni 2003 kom hæstv. forsætisráðherra persónulega að viðræðum við formann Öryrkjabandalagsins um kjarasamninga við öryrkja. Sá samningur var kynntur í Þjóðmenningarhúsinu og kynntur þjóðinni og á annan tug þúsunda öryrkja í dagblöðum daginn eftir.

Í Morgunblaðinu sagði m.a. að fyrir hvert ár sem liði eftir að menn hefðu orðið öryrkjar fengju menn 421 kr. Það var reiknað út hvað það þýddi fyrir mann á tilteknum aldri, á þessum aldrinum og hinum aldrinum, og þannig birt þjóðinni og athugasemdalaust af Framsóknarflokknum. Í kosningabaráttunni fór hæstv. forsætisráðherra og lofaði þjóðinni efndum á þessu samkomulagi.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að hann vanti rúmlega 500 millj. kr. til þess að geta uppfyllt þetta samkomulag, hann hafi aðeins getað tekið tvo þriðju hluta samkomulagsins við síðustu fjárlagagerð. Ég hlýt því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekkert sé að marka samninga sem gerðir eru við ríkisstjórn Íslands og birtir almenningi opinberlega í fjölmiðlum í aðdraganda kosninga.