131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[18:14]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Hér eru til 3. umr. fjárlög ársins 2005, þrátt fyrir að fram hafi komið upplýsingar um að ýmsar mikilvægar forsendur sem lagðar eru til grundvallar í því frumvarpi standist ekki þegar til á að taka.

Ekki virðist vilji hjá stjórnarliðum til að nýta þó þann tíma sem við höfum samkvæmt þingsköpum til að fara í gegnum breytingarnar og skoða hvort rétt sé að gera á frumvarpinu einhverjar breytingar.

Með leyfi forseta, í þingsköpum stendur:

„Álit og tillögur nefndanna skal prenta sem fylgiskjöl með nefndaráliti fjárlaganefndar eða meiri hluta hennar. 3. umræða um frumvarp til fjárlaga skal hefjast eigi síðar en 15. desember.“

Í þingsköpum stendur að við þurfum ekki að hefja 3. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrr en 15. desember. Því er nægur tími fyrir hendi til að velta því fyrir sér hvaða áhrif þær breytingar sem við höfum séð í þjóðhagsspá Seðlabankans mundu hafa á helstu hagstærðir í fjárlagafrumvarpinu. En til þess er ekki vilji hjá ríkisstjórnarmeirihlutanum eins og skýrt hefur komið fram í dag og lýsi ég undrun minni á því.

Í umræðum um frumvarp til fjáraukalaga fór ég yfir það að við hefðum ekki fengið upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu um áætlaða stöðu einstakra stofnana í lok þessa árs. Eins og þar kom fram tel ég að slíkar upplýsingar séu nauðsynlegar til að meta hvernig til hefur tekist í rekstri einstakra stofnana miðað við þau fjárframlög sem þeim eru ætluð.

Við vinnum eftir þingsköpum. Í þeim er skýrt tekið á á því, í 25. gr., hvaða upplýsingum nefndir eiga rétt á og hverjir skuli veita nefndum upplýsingar sem um er beðið. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr 25. gr. þingskapa. Þar segir:

„Fjárlaganefnd á rétt á að fá þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar um rekstur og fjárhagsáætlanir fyrirtækja og stofnana sem óska eftir framlögum úr ríkissjóði. Enn fremur er þeim stofnunum ríkisins, er fást við efnahagsmál, skylt að veita nefndinni upplýsingar og aðstoð sem hún þarf á að halda við afgreiðslu þingmála.“

Ósk okkar í minni hluta fjárlaganefndar um að fá upplýsingar, ekki bara stöðu stofnana eins og hún er í lok september á þessu ári árs heldur líka hver væri áætluð staða stofnananna af þeirra hálfu eða fagráðuneytanna í lok ársins. Það eru nauðsynlegar upplýsingar til að gera sér grein fyrir því hvort áætlað er af skynsemi með fjárframlög næsta árs.

Til eru dæmi um stofnanir, virðulegi forseti, sem hefja árið 2003 með neikvæðan höfuðstól, jafnvel þótt búið sé að taka tillit til allra fjárveitinga til þeirra á fjárlögum ársins. Uppsafnaður gamall halli er það mikill í upphafi ársins að allar fjárveitingar stofnunarinnar á árinu duga ekki til að koma höfuðstól hennar í upphafi árs upp fyrir núllið. Hún hefur því starfsemina á árinu í mínus.

Það er ótrúlegt hve mikil tregða virðist vera til að taka á þessu og skoða þetta mál. Það hlýtur að vera þannig, með hverju árinu sem líður að stofnunum með neikvæðan höfuðstól fjölgar og byrja árið með neikvæðan höfuðstól. Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir fjármálaráðuneytið og hæstv. fjármálaráðherra að gera gangskör að því að meta umfang þessara stofnana og með hvaða hætti skuli mæta hallarekstrinum.

Það er ekki við öðru að búast, ef við lítum ekki á raunveruleikann hjá einstökum viðfangsefnum ríkisins, en að þá safnist annaðhvort umframfjárveitingar upp eða, það sem líklegra er, að halli frá ári til árs myndist með öllum þeim vandræðum sem honum fylgir. Umgengni flestra við fjárlög einkennist af virðingarleysi fyrir þeim lagabókstaf sem þar er settur fram. Í þessu tilfelli gildir hið sama og í öðrum þar sem texti laga er ekki í samræmi við viðtekna venju eða framkvæmd. Smátt og smátt verða allir ónæmir fyrir því að eftir þeim lagabókstaf þurfi að fara.

Þegar við búum við þensluástand eins og nú er er meiri nauðsyn en nokkru sinni fyrr að eftir lagabókstafnum sé farið. Öll markmið um aðhald í ríkisrekstri fjúka út um gluggann ef það sem á blað er sett í fjárlögum er það fjarri raunveruleikanum að engin leið sé fyrir þá sem eftir bókstafnum eiga að starfa að gera svo. Ekki er hægt að fylgjast með hvort að einstakir forstöðumenn stofnana halda sig innan fjárheimilda því að þeim, viðkomandi fagráðuneyti og fjármálaráðuneytinu, er ljóst frá upphafi árs að það er ekki hægt.

Okkur þingmönnum var að berast úttekt Ríkisendurskoðunar á Náttúrufræðistofnun. Hún var rétt að detta í pósthólfin okkar á Alþingi. Ríkisendurskoðun skoðar þar stofnun sem hefur átt við þann vanda að etja sem ég var að lýsa. Uppsafnaður vandi frá ári til árs. Ef maður skoðar þá stofnun á lista sem við fengum frá fjármálaráðuneytinu og stöðu stofnana í upphafi árs þá byrjar Náttúrufræðistofnun árið með halla upp á 39 millj. kr. Sá halli er áætlaður í lok september tæpar 100 millj. kr.

Hvað er eiginlega um að vera? Þannig mætti spyrja þegar maður sér svona tölur. Af hverju er þetta svona? Ríkisendurskoðun fer vel í gegnum rekstur stofnunarinnar og veltir fyrir sér hvað sé að. Hún segir, með leyfi forseta, í þessari skýrslu:

„Brýnt er að taka á fjárhagsvanda Náttúrufræðistofnunar hið fyrsta. Svara þarf því hvort stofnunin fái aukin fjárframlög til að takast á við vandann eða hvort draga eigi saman þannig að rekstur rúmist innan þess ramma sem stofnunin býr nú við. […]

Taka verður sérstaklega á uppsöfnuðum vanda. Vegna hans þarf að ákveða hvort stofnunin skuli greiða hann niður af rekstrarfé sínu eða hvort hann verði greiddur með sérstakri fjárveitingu. […]

Ákvarðanir um það hversu mikla fjármuni stofnun fær til ráðstöfunar eru þó ávallt fyrst og fremst pólitískar og aðeins að hluta til í höndum þess ráðuneytis sem stofnun heyrir undir. Skipting fjármuna milli ráðuneyta og stofnana miðar almennt að því að þeir skili sem mestum ávinningi. […]

Ákvarðanir um það hversu mikla fjármuni stofnunin fær til ráðstöfunar eru þó ávallt fyrst og fremst pólitískar. Aðeins að hluta til í höndum þess ráðuneytis sem stofnunin heyrir undir. […]

Það er álit forsvarsmanna Náttúrufræðistofnunar og talsmanna ráðuneytisins að ramminn sem stofnunin býr við sé of þröngur miðað við lagalegt hlutverk stofnunarinnar og mikilvægi þeirra verkefna sem hún sinnir.“

Hér staðfestir Ríkisendurskoðun í úttekt sinni á stofnuninni að á ferðinni er vandi sem við í stjórnarandstöðunni höfum oft á tíðum bent á. Það er ekki tekið á vanda stofnana þegar ljóst er að þær hafa ekki einu sinni fjármuni til að rækja sitt lagalega hlutverk.

Er ekki betra að setja fram fjárlög sem eru nær raunveruleikanum, viðurkenna að leiðrétta þurfi tekjugrunn margra verkefna eða þá að hafa kjark til að taka pólitíska ákvörðun um annað umfang þjónustunnar en veitt hefur verið og axla pólitíska ábyrgð á slíkri ákvörðun í stað þess að reyna að þvinga umfang rekstrar í ákveðinn farveg með allt of knöppum fjárveitingum?

Þetta háttalag er í raun farið að minna á sams konar háttalag og maður sér hjá bandarískum yfirvöldum í málefnum Keflavíkurflugvallar. Þar er reynt að komast hjá opinberri ákvörðun um umfang, skera fjárveitingar niður smátt og smátt og láta þannig fjármagnið ráða umfangi frekar en að taka stefnumarkandi ákvarðanir. Kannski eru forkólfar ríkisstjórnarinnar í einhvers konar námi hjá þeim sem ráða í Bandaríkjunum.

Ég fór yfir stöðu margra stofnana í umræðunni um fjárlög þessa árs. Þar voru margir skrýtnir hlutir á ferðinni. Sum viðfangsefni virðast safna upp ónotuðum fjárheimildum ár eftir ár meðan önnur, reyndar eru þau fleiri, safna sífellt halla.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að telja upp einstaka stofnanir. Við afgreiðslu lokafjárlaga mun ég taka þessa umræðu upp aftur og hvort ekki sé rétt að breyta núverandi vinnubrögðum og taka upp önnur nútímalegri sem jafnframt kalla á að um hver áramót verði staða stofnana metin og ákvarðanir teknar ef fjárhagslegur rammi er auðsýnilega á skjön við raunveruleikann.

Virðulegi forseti. Í 6. gr. fjárlagafrumvarpsins eru svokallaðar heimildagreinar, sem heimila ríkissjóði annaðhvort að kaupa eða selja eignir sínar á næsta ári. Þar kennir að vanda ýmissa grasa og er um misstórar eignir og upphæðir að tefla. Til dæmis kom inn sem breytingartillaga frá meiri hluta fjárlaganefndar heimild til að kaupa viðbótarhúsnæði að Grensásvegi 12 í Reykjavík, að selja húsnæði sýslumannsembættisins á Hvolsvelli og ráðstafa andvirðinu til kaupa á öðru hentugra húsnæði.

Ein heimildin vakti athygli mína í fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Það var heimild til að kaupa sumarbústaði í þjóðgarðinum á Þingvöllum og jarðir í næsta nágrenni hans. Eins og sést á þessari upptalningu, nánast af handahófi, þarf að leita heimilda í fjárlögum til nánast allra eignabreytinga, stórra og smárra, þegar um ríkiseignir er að ræða. Það vakti þá spurningu, í framhaldi af fréttaflutningi um yfirstandandi viðræður ríkisins við Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ um kaup ríkisins á eignarhlut þeirra fyrrnefndu í Landsvirkjun, hvort ekki væri nauðsynlegt að leita heimildar í fjárlögum eða fjáraukalögum til svo viðamikillar eignabreytingar.

Þar er um stórt mál að ræða og væri full ástæða til að inna eftir því hvort ráð sé gert fyrir því að óska heimildar til umræddra kaupa eða hvort engin þörf sé á því. Vonast ég virðulegi forseti til að einhver talsmaður ríkisstjórnarinnar sjái sér fært að svara þessu þótt áhugi þeirra á umræðunni um fjárlögin virðist af skornum skammti.

Maður veltir óneitanlega fyrir sér hvað veldur tregum áhuga stjórnarliða á að blanda sér í umræðuna. Hið sama var upp á teningnum þegar 3. umr. fór fram um fjáraukalögin og hélt maður helst að það væri vegna þess að þeir bæru einhvern kinnroða fyrir því að í því frumvarpi var tryggilega eytt öllum viðbótartekjum sem ráð var fyrir gert umfram forsendur fjárlaganna sjálfra.

Nú segjast stjórnarliðar vera með glæsilegt frumvarp, eins og þeir kjósa að kalla það. Maður saknar þess að þeir séu hér til umræðna um meistarastykkið. Getur verið að það sé að renna upp fyrir mörgum þeirra að þetta sé ekki eins glæsilegt frumvarp og þeir hafa haldið? Getur verið að það sé að renna upp fyrir þeim ljós að sá samanburður sem Samfylkingin hefur verið með á fjárlögum annars vegar og ríkisreikningi hins vegar sé bara kórréttur? Hafa þeir áttað sig á þeim sannleik að framlögð fjárlög séu nokkuð langt frá raunverulegri útkomu ársins þegar upp er staðið? Það skyldi þó ekki vera?

Eða getur verið að þeir séu að átta sig á því að forsendur fjárlagafrumvarpsins og sú þjóðhagsspá sem þær eru byggðar á séu á hæpnum grunni fram settar. Við fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd inntum eftir því á fundi nefndarinnar í vinnuferlinu, hvort fjármálaráðuneytið hygðist endurskoða þjóðhagsspá áður en fjárlagafrumvarpinu yrði lokað en fengum þau svör að það teldist ekki nauðsynlegt þar sem sú spá sem frumvarpið byggði á væri það nýleg.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu áðan að alltaf hefði verið farið eftir spá fjármálaráðuneytisins eða Þjóðhagsstofnunar, meðan hún var enn til. Þá liggur beint við að spyrja, virðulegi forseti: Á alltaf að fara eftir spá fjármálaráðuneytisins, jafnvel þó að á síðustu dögum við meðferð frumvarpsins komi fram upplýsingar sem nánast kollvarpa forsendum frumvarpsins? Á samt að halda áfram? Á þá að setja á sig hliðarblöðkurnar eins og vagnhestur og þumbast áfram við að keyra þetta og klára á þeim tíma sem menn ætluðu sér, þótt alls staðar séu farnar að hringja bjöllur og menn segi: Getur verið að þurfi að skoða málið aðeins betur?

Við í fjárlaganefnd áttum von á að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins færi gaumgæfilega í gegnum forsendur fyrir tekjuhlið frumvarpsins. En meiri hluti hennar hummaði það fram af sér. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Pétur Blöndal, samþykkti þó að fá fulltrúa frá Seðlabanka á fund hennar fyrir 3. umr. þar sem farið yrði yfir forsendur. Það var gert í gær og ber að þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir það að hafa orðið við þeirri ósk stjórnarandstöðunnar.

Ef einhver hefur velkst í vafa um nauðsyn þess að fara yfir áætlanir fjármálaráðuneytisins og þjóðhagsstærðir og vöxt þeirra á næsta ári getur hann það ekki lengur eftir yfirferð Seðlabankans. Ekki verður betur séð en að ýmsar forsendur sem lagðar eru til grundvallar í fjárlagafrumvarpinu séu afskaplega rangt áætlaðar. Í raun er ábyrgðarlaust að staldra ekki við og endurskoða þær forsendur miðað við nýjustu upplýsingar. Halda menn að það sé bara að gamni sínu sem Seðlabankinn grípur til þess að hækka stýrivexti sína nú um heilt prósentustig.

Manni sýnist helst, virðulegi forseti, að stjórnarliðar hafi verið það lengi í stjórn og það lengi með meiri hluta á hinu háa Alþingi að þeir telji sig í raun ekki þurfa á nokkurn hátt að taka tillit til þeirra sem hér eru í minni hluta og heldur ekki að taka tillit til þeirra stofnana í þjóðfélaginu sem þó hringja bjöllum.

Berum aðeins saman spá fjármálaráðuneytisins við það sem Seðlabankinn lét frá sér fara í gær.

Við erum hér með rit sem heitir Stefna og horfur, frumvarp til fjárlaga ársins 2005. Þar kemur fram yfirlit yfir þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins. Þar segir, og er ein forsendan fyrir því sem fjárlagafrumvarpið byggir á, að litlar breytingar hafi orðið á framvindu stóriðjuframkvæmda á næstu árum frá síðustu spá í maí. Þetta er einfaldlega rangt. Það hafa orðið breytingar. Framkvæmdir í Hvalfirði og eins hjá Fjarðaráli á Reyðarfirði verða fyrr á ferðinni en ætlað var í maí þannig að þessi forsenda er fallin.

Í forsendum segir einnig að gert sé ráð fyrir því að gengisvísitalan verði að meðaltali um 122 stig á þessu ári en hækki síðan í 125 stig á næsta ári sem þýðir 2,5% lækkun íslensku krónunnar. Allir sem hafa kynnt sér stöðu efnahagsmála núna eru ósammála þessari forsendu. Þeir telja að gengið muni halda áfram að styrkjast á næsta ári.

Í forsendum fjármálaráðuneytisins sjálfs segir um gengið, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að íslenska krónan muni veikjast stig af stig og er þá tekið mið af minnkandi gjaldeyrisinnflæði á næstu árum. Þessu til viðbótar ber að hafa í huga að með vaxandi viðskiptahalla myndast aukinn þrýstingur á krónuna til lækkunar.“

Þetta er rangt miðað við þær upplýsingar sem menn hafa í dag.

Hér segir einnig, með leyfi forseta:

„Önnur mikilvæg forsenda er að nýgerðir kjarasamningar samtaka launþega og atvinnurekenda muni einnig gilda í megindráttum fyrir þau stéttafélög sem ekki hafa endurnýjað kjarasamninga sína.“

Virðulegi forseti. Þetta er skrifað fyrir kennarasamningana og þar með orðin forsenda sem ekki stenst.

Síðan segir í riti fjármálaráðuneytisins enn, með leyfi forseta:

„Auk framangreindra forsendna er gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum stjórnvalda bæði á sviði peningamála og ríkisfjármála til að styrkja stöðugleika í verðlagsmálum. Í spánni er gengið út frá því að stýrivextir Seðlabankans verði hækkaðir stig af stigi í 7,5% fram til ársins 2006 en fari síðan lækkandi.

Við vitum öll sem hér erum inni að þetta er rangt. Þetta getur ekki orðið svona eins og þarna er sagt og gert ráð fyrir að þróunin verði á stýrivaxtastiginu hjá Seðlabanka. Seðlabankinn var að hækka vexti sína í 8,25% og er kominn 75 punkta um fram það sem þarna segir strax núna í lok ársins 2005 þannig að þessi spá sem lögð er til grundvallar fjárlagafrumvarpinu að þessu leyti er einnig röng.

Virðulegi forseti. Það er nánast sama hvar maður drepur niður fæti í kaflanum Forsendur fjárlaga og yfirlit þjóðhagsspár, að það sem þar stendur er annaðhvort þegar orðið úrelt eða beinlínis rangt. Það hlýtur að vera ábyrgðarhluti og við hljótum að vísa þeirri ábyrgð á stjórnarmeirihlutann að afgreiða fjárlögin, lögin sem allir sem á einhvern hátt koma að rekstri á vegum ríkisins eða njóta fjármuna úr ríkissjóði þurfa að fara eftir og eiga að fara eftir. Hvernig í ósköpunum getum við búist við að nokkur sýni þessum fjárlögum virðingu þegar svona er staðið að?

Annað sem vakti athygli mína við að fara hér yfir forsendur er að fjármálaráðuneytið gerði ráð fyrir að stýrivextir yrðu 7,5% fram til ársins 2006 en færu síðan lækkandi. En jafnvel ef þetta hefði staðist þá hefðu verðbólgumarkmiðin sem Seðlabankinn hefur sett sér og þarf að gæta ekki staðist. Ef menn hefðu viljað vera sjálfum sér samkvæmir og styrkja Seðlabankann í því að halda sínum verðbólgumarkmiðum þá hefði ekki dugað að setja hér inn 7,5% eins og fjármálaráðuneytið gerir í þessum forsendum.

Svona mætti halda áfram nokkuð lengi. En umræðan er orðin nokkuð löng og ég ætla mér ekki að draga hana mjög á langinn. Ég held þó að með því að fara yfir þessar forsendur, draga þær fram og bera þær síðan saman við þær forsendur sem búið er að leggja í þjóðhagsspá Seðlabankans í gær þá hljóti allir sanngjarnir menn að sjá að hér erum við að fara fram með hætti sem ekki er boðlegur. Við höfum nógan tíma til að skoða hvort við getum ekki komið þessu í boðlegt ástand. Við þurfum ekkert að taka 3. umr. um fjárlög fyrr en 15. desember eftir því sem þingsköpin segja.

Virðulegi forseti. Við verðum að fara að breyta vinnubrögðum. Fjárlagafrumvarpið er allt of mikið sett fram á sama grunni ár eftir ár og stundum er reyndar mjög erfitt að verjast brosi þegar maður þekkir sama textann í skýringum bæði með frumvarpinu í fyrra og nú. Ég er nú ekki eldri sem þingmaður en svo að ég hef ekki stúderað texta fjárlagafrumvarpa nema í þessi tvö skipti. Ég er að sjá sama textann koma upp aftur og aftur. Brosið verður þó að grettu þegar maður áttar sig á því að texta er ekki einu sinni breytt þar sem þó hafa orðið breytingar á lögum sem kalla á slíka textabreytingu.

Nærtækt dæmi er um hátekjuskattinn en breytingar á honum voru lögfestar á liðnu þingi. Þá var leitt í lög að hann skyldi lækka úr 5% í 4% á þessu ári. Á næsta ári, árinu 2005 sem við erum hér að fjalla um, ætti hann að lækka um helming, úr 4% í 2%. En sjálfvirknin við gerð fjárlaga er það mikil að í frumvarpi fyrir næsta ár er sami texti hvað þessa breytingu varðar og var í síðasta frumvarpi.

Í fjárlagafrumvarpinu á bls. 268 undir kaflanum Tekjuskattar einstaklinga segir, með leyfi forseta:

„Einnig er skatthlutfall sérstaks tekjuskatts lækkað úr 5% í 4% samkvæmt ákvörðun Alþingis.“

Þetta er rangt. Þarna á að standa: Einnig er skatthlutfall sérstaks tekjuskatts lækkað úr 4% í 2% samkvæmt ákvörðun Alþingis.

Ég held að þetta sýni okkur kannski betur en margt annað hvað mikið er um það að textinn í frumvarpinu sé einfaldlega skorinn út úr síðasta frumvarpi og settur í það nýja, sérstaklega af því að þetta er þessi umdeildi hátekjuskattur og maður hefði því haldið að embættismenn fjármálaráðuneytisins mundu nú passa sig á því að textinn væri réttur. En svona villa fer í gegn.

Virðulegi forseti. Mér hefur orðið tíðrætt um þjóðhagsspá Seðlabankans og kannski er það ekki skrýtið. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hélt hér ræðu fyrr í dag og talaði um góðærisvaðalinn, held ég að hann hafi kallað það. Ég vil nú kannski ekki taka þannig til orða. Þó er rétt að hafa í huga að stjórnmálamenn hafa áhrif á þær ákvarðanir sem almenningur er að taka.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér upp úr Peningamálum Seðlabanka Íslands, undir kaflanum Einkaneyslu. Þar segir:

„Heimilin líta nokkuð björtum augum til framtíðarinnar, ef marka má væntingavísitölu Gallup. Þótt vísitalan hafi tvívegis lækkað nokkuð á árinu stendur hún hátt. Við slíkar aðstæður eru heimilin fúsari en ella til að auka skuldir sínar, enda jukust útlán meginhluta lánakerfisins, þ.e.a.s. innlánsstofnana, Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóða, til heimilanna um 14% á tólf mánuðum til septemberloka, eins og fyrr segir. Í október bætti enn frekar í vöxtinn, því að í lok mánaðarins nam tólf mánaða vöxtur útlána innlánsstofnana til einstaklinga 30%.“

Svo standa hér hæstv. ráðherrar í ræðustól og tala um að menn þurfi að sýna varkárni, menn þurfi að sýna hógværð og umgangast þessa peninga sem nú eru í boði með varfærni. Ég held að góðæristalið eins og það er búið að vera hjá hæstv. ráðherrum nokkuð lengi hafi einmitt mikil áhrif á væntingar almennings sem mælast síðan í væntingavísitölu Gallups og hæstv. ráðherrar eigi sinn þátt í þessari skuldaveislu sem nú er í gangi.

Í sama riti Seðlabanka er tafla um helstu óvissuþætti verðbólguspár bankans. Þeir fara þar yfir ýmsa óvissuþætti eins og einkaneyslu, gengisþróun, launaþróun, ríkisfjármál og eignaverð.

Ég ætla aðeins að fá að lesa upp úr þessari töflu, en þar segir varðandi einkaneyslu, með leyfi forseta:

Áhrif breytinga á lánamarkaði í formi lægri langtímavaxta og aukins aðgengis að lánsfé og möguleg auðsáhrif á einkaneyslu geta verið vanmetin.“

Hvað áhrif hefur það á verðbólgu samkvæmt þessari töflu? Með leyfi forseta:

„Hætta á að eftirspurnarþrýstingur sé vanmetinn og verðbólgu því vanspáð.“

Um gengisþróun segir í töflunni með leyfi forseta:

„Mikill viðskiptahalli og væntingar um aukna verðbólgu næstu árin geta þrýst niður gengi krónunnar.“

Hver eru áhrif á verðbólgu? Með leyfi forseta:

„Hætta á að gengi krónunnar lækki og verðbólgu því vanspáð.“

Launaþróun, með leyfi forseta:

„Möguleiki á að slæmar verðbólguhorfur og útkoma annarra kjarasamninga setji launalið almennra kjarasamninga í uppnám.“

Hver eru áhrif á verðbólgu? Með leyfi forseta:

„Hætta á að launahækkanir verði meiri en spáð er og verðbólgu því vanspáð.“

Ríkisfjármálin, með leyfi forseta:

„Möguleiki á að aðhald í ríkisfjármálum verði minna en gert er ráð fyrir í áætlunum.

Möguleiki á að áhrif skattalækkunaráætlana á væntingar um framtíðartekjur séu vanmetnar og að eftirspurnaráhrif áforma verði því meiri.“

Áhrif á verðbólgu, með leyfi forseta:

Hætta á að eftirspurnarþensla verði meiri í hagkerfinu en spáð er og verðbólgu því vanspáð.“

Helstu óvissuættir á bak við verðbólguspá Seðlabankans eru þeir að þegar þeir fara yfir það sem gæti breyst þá telja sérfræðingar Seðlabankans að þeir séu frekar að fara varlega í að spá verðbólgu hér á landi og að frekar sé hætta á að óvissan sé með þeim hætti að verðbólga geti verið meiri en spáð er.

Virðulegi forseti. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur alveg frá síðustu kosningum og reyndar áður kerfisbundið hækkað gjöld og álögur á almenning til að safna fyrir skattalækkunarloforðum sínum. Vel hefur verið farið yfir hvernig það hefur verið gert og mun ég ekki endurtaka það hér þó full ástæða sé til að halda því til haga einu sinni enn.

Hryggilegast við þetta er þó sú staðreynd að ef við horfum til næsta árs þá skilar þessi ríkisstjórn ekki einu sinni til baka þeim auknu álögum sem hún hefur lagt á á þessu ári og hyggst leggja á á því næsta. Þetta er ljótur leikur og helst til þess fallinn að færa auknar byrðar á lág- og millitekjufólk í landinu frá þeim sem betur eru búnir til að bera þær byrðar.

Herra forseti. Veruleikaflótti stjórnvalda er átakanlegur og ekki til þess fallinn að jafna lífskjör í landinu.