131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:13]

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum komin í 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2005. Í 2. umr. lagði Samfylkingin fram margar góðar breytingartillögur en meiri hlutinn hefur hafnað þeim þrátt fyrir margar ábendingar og aðvaranir, bæði frá okkur þingmönnum Samfylkingarinnar svo og ýmsum velmetnum samtökum í landinu.

Tillaga Samfylkingarinnar um lækkun matarskatts er algjörlega hunsuð af meiri hlutanum. Lækkun matarskatts er eitthvað sem kæmi okkur öllum til góða og mundi stuðla að jöfnuði. En slíkt hugnast ekki hinum þaulsætna meiri hluta þrátt fyrir þær hliðarverkanir að lækkun matarskattsins mundi leiða af sér lækkun neysluverðsvísitölu sem aftur mundi leiða af sér léttari afborganir af lánum.

Þrátt fyrir margítrekaðar ábendingar stendur meiri hlutinn við þá ákvörðun sína að fella niður, eins og hér hefur oft komið fram í dag og í kvöld, fjárveitingu til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þingmönnum og ráðherrum hafa borist áskoranir frá mörgum samtökum vegna fjárveitinga til Mannréttindaskrifstofunnar, t.d. frá stjórn Íslandsdeildar Amnesty International, frá stjórn Rauða krossins, frá Landssamtökunum Þroskahjálp og frá Biskupsstofu. Þrátt fyrir áskoranir frá þessum mikilvægu mannúðarsamtökum heldur meiri hlutinn fast við sitt og sker niður beina fjárveitingu til Mannréttindaskrifstofu Íslands. Sjálfstæður rekstur skrifstofunnar á að tryggja að í landinu starfi óháður greiningar- og eftirlitsaðili á sviði mannréttinda. Það ætti, virðulegur forseti, öllum að vera ljóst.

Hróður meiri hlutans í þessu máli hefur borist út fyrir landsteinana. Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna lýsti yfir furðu með þessa ákvörðun og telur sig þurfa að fylgjast grannt með þróun mannréttindamála á Íslandi. Einu svörin frá meiri hlutanum eru þau að nú skuli skrifstofan sækja í sjóði. Ef Mannréttindaskrifstofan þarf t.d. að verja mannréttindi gagnvart dómsmálaráðuneytinu þá er það starf undir því komið að ráðuneytið samþykki að veita styrk til verksins. Hvað veldur því að þetta gerist svo fyrirvaralítið?

Við slíkar aðstæður læðist að manni sá grunur að skrifstofan sé meiri hlutanum ekki lengur þóknanleg. Getur það virkilega verið að einstaka ráðherrum ríkisstjórnarinnar, eins og ýjað hefur verið að í dag, sé svo í nöp við skrifstofu mannréttindamála að þeir í bræði sinni felli hana út af fjárlögum? Getur verið að afskipti og álit á lagafrumvörpum, t.d. frumvarpi um útlendinga, hafi komið skrifstofu mannréttindamála á svartan lista dómsmálaráðherra?

Virðulegi forseti. Minni hlutinn er með breytingartillögu sem farið var yfir áðan í þeim tilgangi að tryggja Mannréttindaskrifstofu Íslands 9 millj. kr. fjárveitingu árið 2005. Því gefst meiri hlutanum enn eitt tækifærið til að standa vörð um mannréttindi á Íslandi.

Það hefur og komið fram í máli hv. þm. Önnu Kristínar Gunnarsdóttur að Þjóðhagsstofnun, sem á sínum tíma kom með álit og athugasemdir sem hinum háu herrum þóknaðist lítt, var einfaldlega lögð niður.

Nú við 3. umr. um fjárlög kemur í ljós að vilji meiri hlutans til að byggja sendiráð í Berlín í formi hallar hefur ekkert breyst. Á milli 2. og 3. umr. hefur komið í ljós að tilboð í hallarbygginguna hafa farið langt fram úr kostnaðaráætlun. Því er við búið að þær 111,6 millj. kr. sem meiri hlutinn ætlar að veita á næsta ári séu ekki nægar og þar af leiðandi megi búast við tugmilljóna aukafjárveitingu í þennan lið á fjáraukalögum 2005.

Frú forseti. Þrátt fyrir ítrekuð varnaðarorð okkar í Samfylkingunni og forsvarsmanna SÁÁ um fjárveitingar til sjúkrahúsrekstursins á Vogi eru þær langt undir þörfum. Til að slá ryki í augu fólks fara þingmenn meiri hlutans frjálslega með tölur. Í því sambandi hrósaði t.d. hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir, þann 24. nóvember síðastliðinn, hinum þaulsætna meiri hluta fyrir mikla aukningu á fjárlögum til SÁÁ. Þar bar hún saman tölur á fjárlögunum í dag og fjárlögunum árið 1997. Þannig reiknaðist hv. þingmanni til aukning á sjö árum, um 280 millj. kr., úr 219 millj. kr. í 499 millj. kr.

Frú forseti. Það er virkilega alvarlegt þegar þingmaður meiri hlutans fer svo frjálslega með tölur. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 2005, sem hér er til umræðu, fara 471,3 millj. kr. til SÁÁ. 219 millj. kr. 1997 þarf að uppreikna til að geta borið þetta saman og uppreiknaðar í dag eru þetta rúmar 291 millj. kr. Raunbreytingin á þeim sjö árum, miðað við frumvarpið, er ekki hækkun upp á 280 millj. kr. eins og hv. þingmaður Framsóknarflokksins gaf í skyn heldur einungis 180,3 millj. kr. Miðað við þarfir sjúkrahússins á Vogi er sú hækkun á sjö árum hvergi næg.

Framlögin eru ekki næg árið 2005 og meiri hlutinn virðist ekki ætla að sjá að sér við 3. umr. Það leiðir af sér niðurskurð, samkvæmt áætlun forsvarsmanna SÁÁ um sparnað. Ég ætla aðeins að nefna nokkur atriði af lista frá samtökunum þar sem birt er áætlun til sparnaðar á árinu 2005. Gert er ráð fyrir að prestaþjónusta sem þar hefur verið veitt verði lögð af. Vakt og móttaka á ráðgjafa- og göngudeild við Vog verði lögð af. Dregið verði úr læknisþjónustu við göngudeild á Vogi og hún að mestu leyti lögð af. Engir nýir sjúklingar verða teknir í viðhaldsmeðferð við ópíumfíkn. Minni þjónusta verður fyrir vímuefnafíkla sem jafnframt eru með geðsjúkdóma og sjúklingar yngri en 16 ára verða ekki innritaðir á Vog, þ.e. breyting verður á rekstri unglingadeildar. Bráðaþjónusta verður að mestu lögð af og viðhaldsmeðferð fyrir ópíumfíkla mun verða dregin saman.

Sjúklingar yngri en 16 ára verða ekki innritaðir á Vog. Þetta er sorgleg afturför, frú forseti. Á sama tíma og við getum lesið um hetjulega baráttu föður við að ná dóttur sinni úr klóm fíkniefna og fíkniefnasala, fáum vitneskju um hve nauðsynlegt er að aðstoða unga vímuefnaneytendur, berast okkur þessar upplýsingar. Sjúklingar yngri en 16 ára verða ekki innritaðir á Vog. Þeir verða ekki innritaðir á Vog verði fjárlagafrumvarpið að lögum óbreytt.

Á hverju ári njóta um 40 börn sérhæfðrar meðferðar á Vogi, meðferðar hjá læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum meðferðaraðilum sem hafa sérhæft sig í meðferð fyrir ungt fólk. Það er dýrara að meðhöndla yngra fólkið. Það krefst yfirsetu, jafnvel sólarhringsyfirsetu. En er það ekki mun hagstæðara fyrir þjóðfélagið að meðhöndla sjúklingana á unga aldri og aðstoða þá þannig við að verða nýtir þjóðfélagsþegnar?

Í fjárlagafrumvarpinu eru aukin framlög til þróunaraðstoðar, þar með talið til friðargæslu í erlendum ríkjum. Við megum ekki gleyma því sem stendur okkur nær og er okkur hvað dýrmætast, það eru börnin okkar. Börn og unglingar sem njóta meðferðar hjá SÁÁ eiga framtíðna fyrir sér. Ef þau eiga ekki kost á aðstoð fyrr en þau verða eldri þá er lífshlaup þeirra mögulega í molum og mikill skaði orðinn hjá þeim og þeirra nánustu.

Frú forseti. Ég vil að lokum enn og aftur lýsa yfir óánægju með það skilningsleysi sem meiri hlutinn, með menntamálaráðherra í broddi fylkingar, sýnir sérsamböndum ÍSÍ. Ég fæ ekki betur séð en framlög sem þau hafa haft til að annast lyfjaeftirlit sé algerlega skorið niður. Sérsambönd ÍSÍ hafa ýmsum verkefnum að sinna sem óþarfi er að fara yfir en það sem almenningi er hvað sýnilegast er umsjón með þátttöku okkar í íþróttum á erlendri grund. Í flestum tilfellum þurfa þeir einstaklingar er keppa fyrir hönd þjóðarinnar að kosta þátttökuna sjálfir. Þessu verður að breyta. Hæstv. menntamálaráðherra hélt nýverið samráðsfund með forsvarsmönnum ÍSÍ og sérsambandanna, fund sem engu virðist hafa skilað. Ég skora á ráðherra og fjárlaganefnd að endurskoða afstöðu sína um fastar fjárveitingar til sérsambanda ÍSÍ, ef ekki við afgreiðslu þessara fjárlaga á morgun þá fyrir fjárlagagerð 2006.