131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[19:55]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég óskaði eftir því fyrr í dag að tveir ráðherrar yrðu viðstaddir þegar ég flytti ræðu mína, annars vegar hæstv. umhverfisráðherra og hins vegar hæstv. menntamálaráðherra. Ég hef fengið símtal frá hæstv. umhverfisráðherra þar sem hún sagði mér að ómögulegt væri fyrir sig að komast frá en mig langar til að vita hvort einhver boð hafi borist frá hæstv. menntamálaráðherra.

(Forseti (HBl): Hæstv. menntamálaráðherra er ekki í húsinu.)

Þá langar mig að spyrja hæstv. forseta hvort vitað sé hvort viðkomandi ráðherra, hæstv. menntamálaráðherra, sé væntanlegur í húsið vegna beiðni minnar.

(Forseti (HBl): Ég skal láta athuga það en mér var ókunnugt um þessa beiðni.)

Ég get þá hafið mál mitt, virðulegi forseti, meðan verið er að ganga úr skugga um hvort hæstv. menntamálaráðherra sé væntanlegur í húsið. Nú hefur 3. umr. um fjárlög farið fram frá því í morgun og eins og venjulega flytur stjórnarandstaðan mónólóga sína og ráðherrabekkirnir eru nánast auðir. Hæstv. fjármálaráðherra hefur þó verið í húsinu og fylgst með umræðunum, eins og eðlilegt hlýtur að teljast, en aðrir ráðherrar hafa ekki sést hér nema að litlu leyti, jú reyndar heiðraði hæstv. forsætisráðherra okkur með nærveru sinni í stutta stund í dag. Þetta er vægast sagt orðið afar bagalegt því stjórnarandstaðan hefur mikið til málanna að leggja, sérstaklega þegar ástandið í efnahagsmálunum er eins og það er og aðgerðir Seðlabanka í gær eru jafndramatískar og þær eru, þá er eðli málsins samkvæmt afar óeðlilegt að hæstv. ráðherra skuli ekki vera hér til andsvara varðandi málefni einstakra ráðuneyta.

Það hlýtur að teljast eðlilegt og hluti af sjálfsögðu lýðræði í lýðræðissamfélagi að hér fari fram samtal stjórnarandstöðu og hæstv. ríkisstjórnar, sérstaklega þegar um er að ræða eitt viðamesta mál hvers þings, þ.e. fjárlögin.

(Forseti (HBl): Hæstv. menntamálaráðherra hefur enga möguleika á að vera hér.)

Jæja, hæstv. forseti, eins og venjulega þurfum við þingmenn stjórnarandstöðunnar að taka því með stóískri ró að hæstv. ráðherrar séu svo uppteknir að þeir sjái sér ekki fært að vera við síðustu umræðu fjárlaga, umræðu sem hefur verið mjög efnis- og yfirgripsmikil, þar sem tekið er á grundvallaratriðum í efnahagsstjórn okkar og hagstjórn. Mér þykir það vægast sagt mjög miður að ekki skuli vera hægt að leggja spurningar fyrir hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. umhverfisráðherra vegna tveggja tillagna sem ég ætla að fjalla um í ræðu minni, en það verður þá svo að vera, við reynum að halda ró okkar yfir því eins og öðru sem mætir okkur á vegferð okkar við störf Alþingis Íslendinga.

Ég ætla ekki að fara vítt yfir í máli mínu, hæstv. forseti. Tillögunar sem ég vil fyrst og fremst gera að umræðuefni eru tvær. Þær er að finna annars vegar á þskj. 527, þar er um að ræða breytingartillögur við frumvarp til fjárlaga sem er frá öllum þingmönnum stjórnarandstöðunnar og lýtur að málefnum Mannréttindaskrifstofu Íslands og Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.

Hin tillagan er á þskj. 525 og er breytingartillaga frá mér sem varðar náttúruminjasafn. Þá tillögu boðaði ég í 2. umr. um fjárlög og nú liggur hún hér fyrir þannig að formleg framsaga mín um þá tillögu fer fram hér og nú.

Það er að mörgu leyti heppilegt að nú skuli vera komin í hús skýrsla frá Ríkisendurskoðun um fjármál Náttúrufræðistofnunar en hún barst í hólf þingmanna í gær. En svo sem kunnugt er hefur rekstrar- og fjárhagsvandi Náttúrufræðistofnunar Íslands verið talsverður undanfarin ár og það tengist að sjálfsögðu málefnum Náttúruminjasafns og ég mun því leggja út af þeirri skýrslu í máli mínu, virðulegi forseti.

Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi Íslendinga safnalög og nýja stefnu um höfuðsafn þjóðarinnar. Þar gerum við ráð fyrir fjórum höfuðsöfnum, þ.e. Landsbókasafni, Þjóðminjasafni, Listasafni Íslands og fjórða safnið er svo Náttúruminjasafn. Sannleikurinn er sá að síðan þessi ákvörðun var tekin og lögin sett, hefur ekkert gerst í málefnum Náttúruminjasafns og er það að sjálfsögðu afar miður því að Náttúrufræðistofnun Íslands sem hefur með varðveislu þessa safns að gera hefur í áratugi barist fyrir úrbótum í húsnæðismálum sínum. Í þeirri vinnu allri hefur ævinlega verið gert ráð fyrir safnahúsi, enda tel ég afar nauðsynlegt að Náttúrufræðistofnun Íslands og væntanlegt náttúrugripasafn verði í nánum tengslum, helst svo nánum að þau séu ef ekki undir sama þaki þá í mjög tengdum byggingum, því eðli málsins samkvæmt hljóta vísindamenn Náttúrufræðistofnunar að þurfa að nýta sér efni Náttúruminjasafns við störf sín.

Breytingartillaga mín gerir ráð fyrir því að Alþingi Íslendinga samþykki 20 millj. kr. framlag til þess að undirbúa stofnun Náttúruminjasafnsins. Ég verð að segja að það er afar lág upphæð og í sjálfu sér táknræn og ætti að vera útlátalaus fyrir okkur en í öllu því flóði milljóna sem við höfum veitt til safnamála, ég ætla ekki að gagnrýna það því það er vel, tel ég að Náttúruminjasafnið sé hér út undan og hornreka sannarlega að ástæðulausu.

Varðandi fjárhagsvanda Náttúrufræðistofnunar almennt kemur í ljós í skýrslu Ríkisendurskoðunar að talsmenn umhverfisráðuneytisins eru sammála yfirmanni Náttúrufræðistofnunar um að stofnunin nái ekki lengur að sinna lögbundnum verkefnum með fullnægjandi hætti. Mér þykja það nokkur tíðindi, hæstv. forseti, að umhverfisráðuneytið skuli viðurkenna að vandi stofnunarinnar sé orðinn svo mikill að hún nái ekki lengur að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Á sama tíma og það gerist er sett fram, má segja, krafa um það frá íslenskum stjórnvöldum að hluti af starfsemi Náttúrufræðistofnunar, þ.e. starfsemi Akureyrarseturs stofnunarinnar, skuli færður í nýtt rannsóknarhús sem tengt er Háskólanum á Akureyri.

Komið hefur fram í máli yfirmanna stofnunarinnar að þetta ráðslag sé gagnrýnivert og varhugavert á þessum tímum, sérstaklega vegna núverandi fjárhagsstöðu stofnunarinnar. Það sé hæpið að gera þessar umfangsmiklu breytingar í húsnæðismálum stofnunarinnar vegna þess að þær leiði til mikillar hækkunar á húsaleigu. Þær leiði til viðbótarkostnaðar sem nemur 25 millj. kr. á ári. Sú upphæð er álíka mikil og árleg fjárvöntun stofnunarinnar um þessar mundir. Það verður því að taka undir þau orð sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þessi ráðstöfun orki mjög tvímælis miðað við þá stöðu sem stofnunin er í.

Ég hefði sannarlega talið fulla þörf á því að eiga hér skoðanaskipti við hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. umhverfisráðherra, því nú heyra þessi mál undir báða þessa ráðherra, um þetta ráðslag. Ég vil fá að heyra það úr munni hæstv. ráðherra hvernig þær rökstyðji það að farið skuli í þennan flutning á setri Náttúrufræðistofnunar á Akureyri á þeim tíma sem stofnunin nær svo langt í frá endum saman í fjármálum sínum. Gert er ráð fyrir að uppsafnaður halli stofnunarinnar verði við lok þessa árs yfir 60 millj. kr. Nú geri ég mér ekki fulla grein fyrir því hvort þær 36 millj. sem komu til stofnunarinnar á fjáraukalögum eru dregnar frá þessum 60 millj. sem við höfum verið að vinna með í aðdraganda þessara fjárlaga, en hvort sem þær eru dregnar frá eða við getum dregið þær frá þeim 63 millj. eða bætt þeim við, þá gildir það einu því að vandi stofnunarinnar, bæði uppsafnaður vandi og fyrirsjáanlegur á næstu árum ef ekki verða breytingar, er slíkur. Hann er umtalsverður.

Það sem í raun og veru er ósanngjarnast af öllu varðandi fjármál Náttúrufræðistofnunar er að sértekjukrafan skuli vera jafnhá og raun ber vitni, tæpar 130 millj. ef ég man rétt. Það er fullkomlega óraunhæft að ætla að sértekjur stofnunarinnar verði svo miklar á næsta ári. Það hefur í sjálfu sér verið staðfest af fulltrúum umhverfisráðuneytisins og það er vitað að þær hafa verið að dragast saman á undanförnum tveimur árum og engin teikn á lofti um að þær komi til með að aukast, heldur þvert á móti, vegna þess að uppsagnir stofnunarinnar á starfsmönnum gera það að verkum að sértekjurnar dragast saman, vegna þess að sértekjurnar fylgja oftar en ekki einstökum starfsmönnum. Og því fleiri starfsmönnum sem sagt er upp, þeim mun minni líkur eru á að einhverjar umtalsverðar sértekjur komi í hlut stofnunarinnar.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er verið að lýsa veruleika sem ekki er hægt að vefengja, veruleika sem umhverfisráðuneytið hefur viðurkennt, samt leyfir ríkisstjórnin sér athugasemdalaust að gera þær kröfur sem gerðar eru í fjárlagafrumvarpinu um sértekjur og um að stofnunin komist af á fjármunum sem eru langt undir því sem eðlilegt gæti talist miðað við það að hún standi undir sínum lögbundnu kröfum. Hér er stefnt í það að fleiri háskólamenntaðir einstaklingar sem hafa verið í opinberum störfum verði atvinnulausir og þykir manni nóg um háskólamenntað fólk á atvinnuleysisskrá, virðulegi forseti.

Ég krefst svara um það við þessa umræðu hvers vegna menn draga svona lappirnar í málefnum stofnunarinnar og þá um leið málefnum eins af höfuðsöfnum þjóðarinnar, Náttúruminjasafns. Eru menn vísvitandi að ganga þannig frá málum að verið sé að gengisfella þau málefni sem heyra undir Náttúrufræðistofnun Íslands? Ég tel eðlilegt að spyrja hreint út og ég krefst þess að fá hér svör. Nú er einungis hæstv. fjármálaráðherra til svara og ég kvarta enn einu sinni undan því að fagráðherrarnir skuli ekki vera hér því það var sannarlega ástæða til að fá þessa umræðu upp og svör hæstv. ráðherra um hvort þær vilji veikja Náttúrufræðistofnun, hvort þær vilji að flokkun vistgerða stöðvist? Eitt af meginmálum sem stofnunin vinnur að er vöktun vegna framkvæmda og ýmissa verkefna sem tengjast mengun, sem tengist aftur stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Vilja menn að þetta leggist af? Hvers vegna draga menn svo lappirnar í jafnmikilvægum málaflokki?

Það segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar að almennt séð megi rökstyðja auknar fjárveitingar til eftirlits og upplýsingaöflunar um náttúruna með tilvísun til mikilvægis náttúruauðlinda fyrir þjóðarhag, virðulegi forseti, og að ákvarðanataka velti á endanum á áherslum og forgangsröðun stjórnvalda. Það er nákvæmlega mergurinn málsins í þessari umræðu. Náttúrugripasafn verður ekki stofnað hér nema það sé vilji stjórnvalda. Alþingi hefur talað. Alþingi vill að hér verði stofnað náttúrugripasafn sem allra fyrst. Alþingi hefur líka tjáð sig um málefni Náttúrufræðistofnunar. Fjárlaganefnd jók meira að segja lítillega við fjárveitingarnar vegna náttúrufarskortanna, sem var vinna sem er afar brýn og útlit var fyrir að mundi stöðvast, en 6 eða 7 millj. voru settar til málamynda í það tiltekna verkefni þannig að ekki þyrfti að koma til stöðvunar í þeim málaflokki.

Ég gagnrýni, hæstv. forseti, það ráðslag að á erfiðum tímum hjá Náttúrufræðistofnun Íslands skuli vera tekin sú ákvörðun að flytja setrið á Akureyri í svo dýrt húsnæði. Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að meira að segja yfirmaður Akureyrarsetursins sjálfur og forstjóri Náttúrufræðistofnunar séu mótfallnir þessum flutningi núna vegna þeirrar fjárhagsstöðu sem stofnunin er í, og eins og ég sagði áðan vegna þess að kostnaður vegna húsnæðisins á Akureyri fer langt með að leiðrétta árlegan halla á rekstri stofnunarinnar. Svo kemur fram í skýrslunni að húsnæðið sé svo stórt að það rúmi 14 starfsmenn en við setrið starfa einungis átta. Og þá vil ég rifja það upp í þessari umræðu, vegna þess að það er hluti af ráðslagi ríkisstjórnarinnar, að rannsóknarhúsið á Akureyri er byggt í einkaframkvæmd, það er byggt á þeim nótum að þeir aðilar sem byggja það eru með allt sitt á þurru. Það er svo ríflega í látið að meira að segja svona lítil stofnun eins og setur Náttúrufræðistofnunar á Akureyri er sett inn í sali sem eru allt of stórir. Ég hef heyrt talað um að leigan á fermetrann sé um 3 millj. kr. á ári. Ég bið um að ég sé leiðrétt ef ég fer með rangt mál. (Gripið fram í: Leigan á fermetra?) Á fermetra 3 millj. kr. á ári. Þá erum við auðvitað að tala um tækjum búið rými. Ég tel að ríkisstjórnin sé með því ráðslagi að setja slíka hluti í einkaframkvæmd og sjá til þess að einkaaðilarnir sem reka húsnæðið séu ævinlega með allt sitt á þurru að fara illa með fjármuni ríkisins, að ekki sé verið að gæta þeirrar ráðdeildar sem hæstv. ríkisstjórn talar fjálglega um í fjárlagaumræðunni að eigi að gera og hún sé að gera. Mér sýnast því verkin ekki lofa meistara sína í þessu tilliti.

Hæstv. forseti. Ég tel að málefni Náttúrufræðistofnunar Íslands og sérstaklega væntanlegs Náttúruminjasafns eigi að vera hér á dagskrá og verðskuldi það að vera rædd hér af yfirvegun áður en fjárlögum hins íslenska ríkissjóðs er lokað. Mér þykir afar miður að hér skuli ekki vera boðið upp á það.

Hitt málið sem ég vildi gera að umtalsefni í ræðu minni, hæstv. forseti, varðar málefni Mannréttindaskrifstofu Íslands. Margir þingmenn hafa reyndar komið inn á það hér og sjálf fór ég í andsvar við ræðu hæstv. forsætisráðherra áðan út af því máli og verð að hafa nokkur orð af því tilefni, enda kom hæstv. forsætisráðherra ekki upp hér í síðara andsvar sitt, nýtti ekki þann tíma sem hann þó hafði til umræðnanna, þannig að hann svaraði ekki þeim grundvallarspurningum sem ég lagði fyrir hann.

Spurningarnar ganga út á það hvort ætlunin sé að draga úr stuðningi stjórnvalda við mannréttindasamtök. Við eigum eftir að fá svör við þeirri spurningu. Ég tel ekki eðlilegt að þessari umræðu ljúki án þess að stjórnvöld svari okkur hreint út hvers vegna þessi breyting er gerð. Hvers vegna nafngreindir liðir sem hafa verið ætlaðir Mannréttindaskrifstofu Íslands hjá tveimur ráðuneytum eru nú búnir til og gerðir að almennum liðum og sagt er að nú eigi að leyfa ýmsum aðilum sem starfa að mannréttindamálum að sækja um í þessa sjóði sem þar með eru orðnir til, tveir 4 millj. kr. sjóðir.

Hæstv. forseti. Það er eðlilegt að ráðherrarnir svari því við þessa umræðu hvaða aðilar það væru mögulega sem þeir búast við að fari að koma hér hlaupandi upp til handa og fóta og sækja um í þessa sjóði, því staðreynd málsins er auðvitað sú að Mannréttindaskrifstofa Íslands er sameiginleg skrifstofa, ég vil meina allra, alla vega langflestra þeirra aðila sem starfa að mannréttindamálum á Íslandi, því innan vébanda Mannréttindaskrifstofu Íslands eru Amnesty International, Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Jafnréttisstofa, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, Rauði kross Íslands, Samtökin ´78, Unifem á Íslandi, Öryrkjabandalag Íslands og Háskólinn á Akureyri. Ég vil bara árétta það að nánast allir þessir aðilar hafa sent þingmönnum undanfarna daga áskoranir þess efnis að það ráðslag sem ríkisstjórnin leggur til verði ekki við lýði, því verði afstýrt og Mannréttindaskrifstofan fái áfram sína nafngreindu liði sem Alþingi Íslendinga veitir henni þar með, þ.e. að fjármagnið komi frá Alþingi Íslendinga en Mannréttindaskrifstofan sé ekki háð einstökum ráðherrum með fjárframlag.

Það er auðvitað eðlilegt að við þingmenn gagnrýnum ríkisstjórnina fyrir þetta ráðslag og spyrjum hér alvarlegra spurninga á borð við þær sem ég spurði hæstv. forsætisráðherra í andsvari og fékk engin svör við, hvort hér sé verið að refsa Mannréttindaskrifstofu Íslands fyrir gagnrýnar umsagnir við stjórnarfrumvörp á síðasta ári. Hæstv. forsætisráðherra svaraði því engu, þannig að enn glymur sú spurning í loftinu: Eru stjórnvöld að refsa Mannréttindaskrifstofu Íslands fyrir að hafa verið gagnrýnin á stjórnarfrumvörp á síðasta ári eða undanförnum árum? Ég krefst svara.

Allir þeir aðilar sem hafa haft samband við okkur erlendis frá og starfa að mannréttindamálum í nágrannalöndum okkur, ítreka og undirstrika nákvæmlega það sem við þingmennirnir sem höfum verið að mótmæla þessu höfum verið að segja hér. Það skiptir meginmáli að Mannréttindaskrifstofa Íslands sé sjálfstæð í störfum sínum og þurfi ekki að eiga allt sitt undir einstökum ráðherrum, heldur geti verið örugg í starfi sínu og óháð með því að Alþingi Íslendinga eyrnamerki henni fjármunina en ekki einstakir ráðherrar.