131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:16]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil við lok umræðunnar gjarnan draga saman nokkur atriði sem mér finnast skipta máli í því sem fram hefur komið að undanförnu varðandi afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár. Ég mun stikla á stóru, en ekki nefna mikið af einstökum fjárlagaliðum.

Ég vil aðeins leiðrétta það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði áðan, hún bað um að verða leiðrétt og ég held að það sé alveg óhætt að gera það. Það er algjörlega óhugsandi að fermetraleiga á ári í einhverju húsnæði sem ríkið er með á leigu sé 3 millj. kr. Algengt fermetraverð á mánuði er um 1.000 til 1.500 kr. Það sinnum tólf eru um 12–18 þús. kr. á ári en ekki 3 millj. Það er því einhver misskilningur í þessu, enda getur þingmaðurinn reiknað það út sjálf að ef 100 fermetra húsnæði mundi kosta 300 millj. kr. á ári yrði ekki mikið aflögu í annan rekstur hjá slíkri stofnun. Þarna hefur því eitthvað farið úrskeiðis, getur verið að einhver núll hafi skolast til einhvers staðar.

Síðan örstutt út af Mannréttindaskrifstofunni, vegna þess að það hefur borið hér á góma oftar en einu sinni, hv. síðasti ræðumaður gaf mér tilefni til þess, að mér er ekki kunnugt um að Mannréttindaskrifstofan hafi gert eitthvað refsivert. Þess vegna er alveg af og frá að gera því skóna. Hér er um að ræða ákvörðun sem fagráðuneyti tvö sem að málinu koma hafa komist að niðurstöðu um. Ég sé ekki að verið sé að minnka framlög til þessa málaflokks með nokkrum hætti. Það er alveg ástæðulaust að óttast eða gefa í skyn að það sé eitthvað annarlegt á ferðinni. (Gripið fram í.) Þetta eru sem sagt ákvarðanir þeirra fagráðuneyta sem að málinu koma, að öðru leyti vísa ég til þeirra skýringa sem hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra gaf um málið.

Áður en ég held lengra, virðulegi forseti, langar mig að nota tækifærið og þakka þeim sem hafa komið að frumvarpinu hér í þinginu fyrir sín störf. Ég tel að vinnubrögðum í sambandi við afgreiðslu fjárlaga hafi farið mjög fram á undanförnum árum. Ég vil þakka öllum í fjárlaganefnd og annars staðar í þinginu fyrir að sjá til þess að tímaáætlun sem sett var fram í upphafi þings hefur staðist í einu og öllu, vil ég sérstaklega nefna fulltrúa stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefndinni, auk að sjálfsögðu annarra þingmanna, formanns og varaformanns, en auðvitað er þetta ekki hægt nema með góðu samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu á vettvangi fjárlaganefndar.

Ég tel mjög mikilvægt allra hluta vegna að þetta gangi svona til og að við setjum hér ákveðið fordæmi sem hefur áhrif, bæði á okkar eigin störf í öðrum málum en líka störf annarra. Ég nefni t.d. að það að okkur tókst að flýta afgreiðslu fjárlaga fyrir nokkrum árum um nokkrar vikur varð til þess að það varð miklu auðveldara fyrir sveitarfélögin að ganga í að klára fjárhagsáætlanir sínar fyrir áramót o.s.frv. Það var auðvitað enginn bragur á þessu þegar menn voru hangandi fram á Þorláksmessu næstum því við að ljúka fjárlagaafgreiðslunni.

Ég vil hins vegar gjarnan bæta því við að ég tel að við getum enn bætt okkur í sambandi við vinnubrögð, þá er ég ekki síst að tala um umræðuna sjálfa, sem því miður er stundum nokkuð marklaus þó hún sé löng og víða sé komið við. Ég held að við hljótum að geta skipulagt hana betur, tekið fyrir með skipulögðum hætti einstaka málaflokka með þátttöku fagráðherranna og gert það þannig að tekin séu fyrir tiltekin mál og þau rædd í þaula og fenginn botn í þau í staðinn fyrir að umræðan sé skipulagslaus með löngum ræðum þar sem sí og æ er verið að tala um sömu málin endalaust út í gegn. Þetta nefni ég sem næsta skref sem ég tel að við gætum kannski náð samkomulagi um að gera í átt til bættra vinnubragða í þinginu hvað varðar afgreiðslu fjárlaga.

Það virðist ætla að verða raunin að niðurstaða fjárlaganefndar eftir 2. umr. fjárlaga verði jafnvel óbreytt við 3. umr. Ég tel líka að það skapi ákveðið aðhald í vinnubrögðum okkar. Við vitum alveg hvernig þetta er þegar fjárlagafrumvarpið er opið á haustin, það má líkja því við ákveðinn glugga sem margir banka á og er af ýmsum ástæðum ekki heppilegt að sá gluggi sé of lengi opinn, því það þarf að passa vel upp á þessa hluti eins og reyndar er gert, en það er sama, það er gott að hafa þann glugga ekki opinn of lengi.

Niðurstaðan eftir 2. umr. og þá væntanlega niðurstaðan eftir atkvæðagreiðsluna á morgun er sú að tekjuafkoman verður ekki 11.221 millj. í afgang, heldur 10.001.500 kr. í afgang. (SJS: Eru ekki einhverjir aurar?) Það má vera að séu einhverjir aurar líka.

Mig langar aðeins að rekja hvaða aðrar breytingar eru í gangi. Þær breytingar verða á sjóðstreymi ríkissjóðs að handbært fé frá rekstri verður við nánari athugun neikvætt um 882 millj. í stað þess að vera jákvætt um 349 millj. Skýringin á þessu er sú að stórir flokkar spariskírteina koma á gjalddaga á næsta ári og verða greiddir vextir því 4,2 milljörðum kr. hærri en gjaldfærðir vextir. Það þarf jafnframt að hafa í huga að ríkissjóður gjaldfærir alla fjárfestingu sína eins og menn vita, sem er samtals 14,8 milljarðar, en færir ekki þá fjárfestingu til eignar og afskrifta síðar meir.

Á sjóðstreymi verður einnig sú breyting að lánsfjárafgangur vex úr rúmum 4 milljörðum í 11 milljarða kr. Stafar það alfarið af auknum innheimtum afborgunum af veittum lánum sem hækka um tæpa 7,4 milljarða. Fjármunahreyfingar batna sem því nemur og að frádreginni rýrnun handbærs fjár skilar það sér í betri lánsfjárafgangi sem er eins og við vitum lykilstærð í þessu dæmi öllu saman. Af þeim sökum batnar staðan við Seðlabanka Íslands um á að giska 2,4 milljarða í stað þess að rýrna um tæplega 3,7 eins og gert var ráð fyrir í upphaflega frumvarpinu.

Þess vegna er áætlað að staðan við Seðlabanka Íslands í árslok 2005 verði 25 milljarðar kr. í inneign, til samanburðar við 20 milljarða í árslok 2004 ef áætlanirnar ganga eftir. Þeim fjármunum má síðan verja til þess að greiða frekar niður lán og spara þannig vaxtagjöld, leggja frekar inn til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til að mæta framtíðarskuldbindingum eða láta peningana liggja á vöxtum í Seðlabankanum sem varasjóð til seinni tíma. Ákvarðanir um það verður að taka með tilliti til stöðunnar á hverjum tíma á lánsfjármarkaðnum og með tilliti til þess hvað er talið heppilegast fyrir ríkissjóð á hverjum tíma.

Mig langar aðeins að nefna það sem margir hafa nefnt í umræðunni, þ.e. hina nýju þjóðhagsspá Seðlabankans. Farið var fram á það fyrr í dag að umræðunni yrði frestað vegna þess að Seðlabankinn hefði sent frá sér nýja þjóðhagsspá. Það er reyndar ekki óvenjulegt því það er ævinlega gert á þessum árstíma, í byrjun desember, að bankinn sendir frá sér slíka spá. Fyrirkomulagið er það í þessum efnum að spáaðilarnir eru með sínar eigin tímasetningar í sambandi við það og fjármálaráðuneytið gefur út þjóðhagsspá 1. október, um leið og fjárlagafrumvarpið kemur út. Hún er síðan endurskoðuð í janúar, m.a. í ljósi þess með hvaða hætti fjárlagafrumvarpið hefur verið afgreitt en einnig nýjustu upplýsinga á öðrum sviðum. Það er ekkert nýtt við þetta. Fjárlagafrumvarpið er að sjálfsögðu byggt á grunni þeirrar þjóðhagsspár sem fjármálaráðuneytið styðst við.

Nú er það þannig, virðulegi forseti, að þær spár sem ég hef nefnt, þ.e. þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins annars vegar og Seðlabankans hins vegar fyrir árin 2004–2006 eru ekkert gríðarlega frábrugðnar. Þær eru mjög keimlíkar hvað varðar árið 2004. Þar munar sáralitlu, en á árinu 2005 er Seðlabankinn einkum með það frávik að gert er ráð fyrir því að landsframleiðslan aukist meira en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir, eða um 6,1%, á meðan ráðuneytið gerir ráð fyrir um 5% aukningu. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að viðskiptajöfnuðurinn verði minni en ráðuneytið gerir ráð fyrir, svo muni 0,5% á landsframleiðslu og gerir ráð fyrir því að verðbólgan milli ára á næsta ári verði 3,4%, á meðan ráðuneytið spáði 3,5%. Í öllum þessum þáttum er Seðlabankinn því með heldur hagstæðari spá almennt séð en ráðuneytið.

Bankinn spáir því á grundvelli meiri hagvaxtar að einkaneyslan vaxi meira en við í ráðuneytinu höfðum gert ráð fyrir og samneyslan sömuleiðis eilítið meira. Að öðru leyti eru ekki nein gríðarleg frávik þarna að mér sýnist. Þeir spá meiri útflutningi á móti meiri innflutningi o.s.frv. Mér finnst því að menn hafi gert fullmikið úr spá Seðlabankans í kjölfarið á því að sú spá var birt í gær. Hvað varðar árið 2006 eru auðvitað einhver frávik þar, en mér sýnist ekki að þau séu stórvægileg. Viðskiptajöfnuðurinn er talinn minni í spá Seðlabankans. Verðbólgan 0,2% meiri. (Gripið fram í.) Mismælti ég mig, hv. þingmaður? Viðskiptahallinn ... (Gripið fram í: … í staðinn fyrir viðskiptahallann ...) Ég biðst afsökunar á því, vona að það verði leiðrétt í útskriftinni ... 11,4% af landsframleiðslu í viðskiptahalla í stað þess að vera 13,5% í spá ráðuneytisins. Ég er að tala um árið 2006.

Hér er því ekki um það að tefla að það hafi orðið gríðarlegar breytingar í þessu, enda eru spárnar alltaf háðar óvissu mikilli eins og við vitum og ef maður leitar aftur í tímann er sú spá vandfundin sem hefur staðist upp á punkt og prik. Síðan hefur Seðlabankinn gripið til aðgerða nú þegar til að reyna að koma í veg fyrir að spá hans rætist. Það er vaxtahækkunin sem var tilkynnt um í gær, 1% hækkun stýrivaxta bankans, sem er ætlað að reyna að sjá til þess að spáin rætist ekki því hún byggist á forsendum nóvembermánaðar, þar á meðal lægri stýrivöxtum, annarri gengisvísitölu o.s.frv.

Ég ætla ekki að fara meira út í þessa sálma. Ég vildi bara láta þess getið að þetta eru tölurnar svona í grófum dráttum. Þær gefa ekki sérstakt tilefni til að vera með mikið drama um þessa hluti. Þetta er allt í þeim farvegi sem ráð er fyrir gert.

Ég vildi nefna annað atriði sem nokkrir þingmenn hafa gert að umtalsefni. Ég veit að fjárlaganefndin velti því töluvert fyrir sér, þ.e. spurningunni um fjárhagsstöðu einstakra stofnana á yfirstandandi ári. Ég veit ekki betur en að nefndin hafi fengið í hendur yfirlit yfir stöðu stofnana til septemberloka, sem er auðvitað ágætt að nefndin velti fyrir sér. Að mínum dómi er hins vegar afskaplega röng ályktun að segja sem svo að þær stofnanir sem komnar eru meira en 4% fram úr í rekstri sínum á fyrstu níu mánuðum ársins eigi þar með kröfu á meiri fjárveitingu. Ef einhver heldur því fram þá er sá hinn sami ekki á réttum nótum með út á hvað rammafjárlögin ganga. Krafan sem menn eiga þá að koma fram með til forstöðumannanna er: Viljið þið ekki gjöra svo vel að sjá til þess að þið standið ykkur þannig það sem eftir er ársins að þið verðið innan rammans? Í stað þess ætla menn að segja: Má ekki bjóða ykkur meiri fjárveitingar? Þeir skamma síðan ríkisvaldið eða meiri hlutann á Alþingi fyrir að koma ekki með meiri fjárveitingar.

Ég vil benda á þetta. Þeir sem tala um að það vanti aga í ríkiskerfið eiga samleið með okkur sem berum ábyrgð á því og við tökum þá höndum saman um að reyna að gera betur en gert hefur verið. Ég er fyrstur manna til að viðurkenna að betur megi gera í þessum efnum. En árangur byggist ekki á því að gera endalausar kröfur um meiri fjárveitingar. Ef það væri þannig að Seðlabankinn hefði rétt fyrir sér um það að aðhaldið væri ófullnægjandi — ég er reyndar ekki sammála því þótt margir haldi því á lofti í þessari umræðu að skýrsla Seðlabanka sýni fram á að aðhaldið sé ófullnægjandi — þá ættu þeir hinir sömu sem því halda fram ekki að gera meiri kröfur um fjárveitingar í hin og þessi verkefni eða stofnanir heldur þvert á móti. Aðhaldið byggist á því að hafa taumhald á fjárveitingum og taumhald á útgjöldum.

Virðulegi forseti. Ég vil að endingu þakka aftur fyrir gott samstarf um þetta frumvarp sem kom fram 1. október. Það er enginn að gera kröfu til þess að allir á Alþingi verði sammála um fjárlagafrumvarpið. Í því birtist að sjálfsögðu stefna ríkisstjórnarinnar en ekki stjórnarandstöðunnar. Þó eru menn sammála um mjög margt sem þar er og mér finnst mikilvægt að í ár og á undanförnum árum hafa menn orðið sammála um að bæta vinnubrögðin. Ég held að það skili ágætum árangri. Ég vil enn á ný þakka fólki samstarfið að því leyti.