131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:36]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það stendur ekkert á því að við höldum ró okkar en ég held að það sé samt nauðsynlegt í allri róseminni að við íhugum að reyna að vanda vinnu okkar sem allra best. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. fjármálaráðherra sé sammála okkur hinum um að fjárlög þurfi að vera vel vönduð þannig að hægt sé að fara eftir þeim. Menn þurfa ekki að gera ráð fyrir því að þegar stofnanir, eins og hæstv. ráðherra tók dæmi um, eru komnar 4% fram úr áætlun þá þurfi endilega að bjóða meiri fjármuni. En þá þarf að gefast tími til að fara yfir það og skoða hvers vegna viðkomandi stofnun hefur farið fram úr, eins og fjárreiðulög gera ráð fyrir.

En því miður virðist það vinnulag ekki stundað í ráðuneytunum, að fara yfir það hvernig á þessu stendur. Getur verið að eitthvað hafi komið upp á eða að vitlaust hafi verið áætlað? Það er því miður, herra forseti, allt of algengt, þegar þessi mál eru skoðuð, að áætlanirnar standist ekki raunveruleikann. Þær á skjön við hann, eins og því miður allt of margt í því frumvarpi sem hér er komið til lokaafgreiðslu.