131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[20:42]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra skuli segja að það megi auka á agann í ríkisfjármálunum og það muni ekki standa á honum, enda getur það ekki gengið þannig að það sé 20 milljarða kr. skekkja á frumvarpinu ár eftir ár.

Vegna hinnar vönduðu skýrslu Seðlabanka sem hæstv. ráðherra hefur hrósað í dag er ástæða til að spyrja ráðherrann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að Seðlabankinn þurfi í þjóðhagsspá sinni að gefa sér það, eins og Landsbankinn og fleiri fjármálastofnanir, sem fyrir fram gefna staðreynd að útgjöld ríkisins verði meiri en áætlað er í fjárlagafrumvarpinu. Þurfa það að vera fyrir fram gefin sannindi í fjármálaheiminum á Íslandi að útgjöld fjárlaga standist ekki heldur verði meiri en ætlað var? Telur hæstv. fjármálaráðherra ekki að þau sjónarmið fjármálafyrirtækjanna og núna Seðlabankans renni stoðum undir þá gagnrýni stjórnarandstöðunnar að ekki sé nægilega vandað til fjárlagagerðarinnar á Alþingi?