131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:03]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum nú að ljúka 3. umr. fjárlaga sem verða afgreidd með 10 milljarða afgangi. Það er mjög raunhæft og mjög gott markmið að ná 10 milljarða afgangi. Það er full ástæða til að vera gramur út í ósanngjarna gagnrýni Seðlabankans á að þessi afgangur sé ekki nægur.

Hvað er það sem farið hefur úrskeiðis? Jú, verðbólgan hefur verið aðeins hærri en við ætluðum og hvers vegna? Það hefur verið greint, það eru olíuhækkanir sem enginn átti von á og í öðru lagi fasteignaverð sem hefur vaxið hér óskaplega. Og hvað veldur því? Gríðarlegt offramboð af peningum, fjármagn yfir 300 milljarða kr. hefur verið flutt inn og lánað á einkamarkaði án þess að Seðlabankinn hreyfði hönd né fót, helst þó það að hann gerði allt öfugt, hann minnkaði bindiskylduna í staðinn fyrir að auka hana.

Það er ástæða til að gagnrýna það þegar rætt er um ríkisfjármálin af svo mikilli lausung sem þeir gera. Þeir hafa enga ástæðu til þess að gagnrýna ríkissjóð, hann hefur staðið sig mjög vel. Það er mjög mikill afgangur á ríkissjóði bæði í sögulegum skilningi og í samanburði við fjárlög annarra ríkja í Vestur-Evrópu. Þetta hefur gengið eins vel og við gátum helst vonast til að yrði. Það er hið raunhæfa í þessu máli og við skulum þakka fyrir það.

Hins vegar er ástæða til að hafa áhyggjur af grundvelli þessa alls sem eru atvinnuvegir þjóðarinnar, samkeppnisgreinarnar og útflutningsgreinarnar. Það var þess vegna og vegna afkomu þeirra sem ég hef gagnrýnt Seðlabankann í dag og gagnrýnt vaxtahækkun, eina ráðið sem þeir telja sig hafa, gagnrýnt vaxtahækkun sem gæti orðið stórhættuleg því jafnvægi sem við stefnum að.