131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:05]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur í raun og veru alltaf í sömu erindagerðum upp í ræðustólinn. Hann er að reyna að búa til algera fjarvistarsönnun fyrir hæstv. ríkisstjórn og efnahagsstefnu hennar. Þetta er allt einhverjum öðrum að kenna. Sökudólgurinn núna er Seðlabankinn og svo bankarnir, að þeir fari glannalega.

Hvað er það m.a. sem Seðlabankinn er — að vísu að verulegu leyti undir rós — að gagnrýna hjá hæstv. ríkisstjórn? Af hverju telur hann sig knúinn til að bregðast svona harkalega við? Það kemur alveg skýrt fram í inngangsgrein efnahagskaflans í skýrslunni. Það er stóriðjustefnan, það eru hinar miklu fjárfestingar sem verða meiri en áður var reiknað með og það eru skattalækkanirnar sem Seðlabankinn hefur greinilega í huga plús útlánaþenslan og framferði fjármálastofnananna þegar hann telur sig knúinn til svona harkalegra aðgerða.

Það þýðir auðvitað ekki að skjóta sendiboðann. Það er í reynd verið að því þegar menn ráðast á aumingja Seðlabankann, sem ég hef því miður leyft mér að kalla svo, eða við skulum segja vesalings Seðlabankann, þegar hann er að reyna að grípa til þeirra nánast einu úrræða sem hann hefur til þess að reyna að ná fram lögbundinni skyldu sinni að halda verðstöðugleika í landinu. Það er ekki sanngjarnt.

Ég held að það sé ekki síður ástæða til að kvarta undan því hvernig rætt er um Seðlabankann í þessu samhengi heldur en að snúa því við og væla undan ósanngjarnri gagnrýni á ríkisstjórnina þegar það er algjörlega ljóst að Seðlabankinn er að bregðast þarna við m.a. þessu tvennu og þessu sérstaklega.

Þegar svo hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur hér og réttilega hefur áhyggjur af útflutningsgreinunum og samkeppnisiðnaðinum ætti hann að líta í eigin barm, maðurinn sem studdi stóriðjuframkvæmdirnar. Eru það ekki ruðningsáhrif þeirra sem við erum þarna að súpa seyðið af umfram allt annað og sjávarútvegurinn og samkeppnisiðnaðurinn að greiða herkostnaðinn af?