131. löggjafarþing — 48. fundur,  3. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:07]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það væri spurning hvernig efnahagslífið á Íslandi liti út hefðu menn ekki gripið til þess ráðs 1967 að hefja hér stóriðjuframkvæmdir, það væri spurning út af fyrir sig. Þá gætu menn kannski, þeir sem vildu, komið sér í torfkofana.

Það er ekki eina ráð Seðlabankans að hækka stýrivexti. Hann hefur fleiri ráð. Ég gat þess áðan, herra forseti, að það hefðu komið yfir 300 milljarðar kr. inn í landið og Seðlabankinn aðhafðist ekkert, hann minnkaði bindiskylduna í staðinn fyrir að auka hana. (Gripið fram í.) Það er mjög hættulegt hjá Seðlabankanum að ýta undir þá þróun að hækka gengi krónunnar, það er mjög hættulegt og bankinn má ekki gera þetta. Þeir eiga að stoppa af þetta umframfjármagn, þeim ber að gera það, þeir hafa til þess öll völd og öll tæki þó að þeir þykist ekki hafa það. Það er ástæða til að gagnrýna þetta vegna þess að offramboðið af peningum er að skapa hér hættuástand. Það er ástæða til þess að vara við þegar það gerist á Íslandi að komið er slíkt offramboð af peningum eins og raun ber vitni. Það er ástæða til að vera hræddur við það þegar gefið er upp að 7.000 einstaklingar hafi verið að taka um 90 milljarða kr. í erlendum lánum núna á þrem mánuðum. Það er ástæða til að vara við og ástæða til að þykja ekki mikið til þeirrar hagstjórnar koma sem þeir þykjast geta beitt í Seðlabankanum.