131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:02]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2005 er komið til lokaafgreiðslu 4. desember í fyllsta samræmi við þá tímaáætlun sem lagt var af stað með í haust.

Niðurstaða þessa frumvarps er sú að afgangur á ríkissjóði á næsta ári verður 10 milljarðar kr. sem er mjög viðunandi niðurstaða í ljósi allra aðstæðna og veitir nauðsynlegt aðhald í efnahagsmálunum en skapar eigi að síður svigrúm til þeirra skattalækkana sem ráðgerðar eru á næsta ári. Þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt var í fyrradag sýnir að það eru frekar líkur á því að afgangurinn í ríkissjóði á næsta ári verði meiri en 10 milljarðar en minni. Það eru auðvitað ánægjuleg tíðindi.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka sérstaklega fjárlaganefndarmönnum, bæði í meiri hluta og minni hluta, fyrir vel unnin störf og fyrir að hafa tryggt að frumvarpið kæmi svo snemma til lokaafgreiðslu.