131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:03]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nú er komið að lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2005 og enn virðist eiga að halda áfram blekkingarleiknum. Þrátt fyrir að í fyrradag hafi komið ný þjóðhagsspá frá Seðlabankanum sem sýndi fram á að forsendur fjárlaganna eru nær allar brostnar skal ekki bæta plaggið. Plaggið skal inn í framtíðina í þeirri mynd sem það var lagt fyrir þingið í upphafi þrátt fyrir að bent hafi verið á að vanbúið var það í upphafi og síðan hafi hlutir, margir hverjir, breyst gífurlega. Það er ljóst að Seðlabankinn hefur sent frá sér fyrsta aðvörunarmerkið, hækkað stýrivexti sína og tekið undir með okkur sem bent höfum á að ekki er nægjanlegt aðhald í fjárlagafrumvarpinu. Fjárlögin munu því ekki nýtast sem skyldi til að mæta þeirri þenslu sem fram undan er.

Herra forseti. Við gerum tilraun til þess við lokaafgreiðslu fjárlaganna að gera á því nokkrar bætur. Við leggjum fram tillögur, m.a. um það að breyta fyrirhugaðri skattalækkun sem svo er kölluð og lækka ekki tekjuskatt flatt um 1% heldur lækka matarskattinn sem vitað er að er meiri hluti fyrir í þinginu. Einnig gerum við tillögu um það að barnabætur sem stjórnarflokkarnir hafa lofað í framtíðinni verði hækkaðar strax í upphafi næsta árs. Við erum með nokkrar tillögur til að bæta stöðu menntastofnana, stöðu sem vitað er að þarf að bæta en stjórnarflokkarnir virðast ætla að halda áfram þeim leik að gera slíkt í fjáraukalögum og skapa þar af leiðandi stofnununum óþarfavanda.

Við gerum enn einu sinni tilraun til að staðið verði við samninginn við Öryrkjabandalagið. Við gerðum tilraun til þess að halda óbreyttu ástandi varðandi Mannréttindaskrifstofu Íslands og við gerum tilraun til þess að horfst verði í augu við fjárhagsvanda sveitarfélaganna. Það er auðvitað með ólíkindum, herra forseti, að svokölluð tekjustofnanefnd skuli ekki hafa lokið störfum áður en fjárlög fyrir árið 2005 eru afgreidd. Það er búið að viðurkenna að þar er vandi sem taka þarf á því að með skipun nefndarinnar er að sjálfsögðu búið að viðurkenna að vandi sveitarfélaganna sé til staðar. Þess vegna eiga menn sem aðhyllast vönduð vinnubrögð að ljúka slíkum störfum áður en fjárlög eru afgreidd.

Þannig er það á fjölda sviða. Nýlega dreifði t.d. hæstv. menntamálaráðherra frumvarpi um Tækniháskóla Íslands þar sem gert er ráð fyrir því, herra forseti, að á næsta ári þurfi að greiða þar á annað hundrað milljónir en sú breyting sem þar er fyrirséð er ekki inni í fjárlögum. Þetta sýnir enn einu sinni hvaða viðhorf, því miður, stjórnarherrarnir hafa til fjárlaga.