131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:17]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hér er tillaga sem við flytjum, sá sem hér stendur og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, um að Háskóli Vestfjarða fái byrjunarfjárveitingu til að geta hafið störf. Vestfirðingar hafa lagt mikla áherslu á stofnun háskóla á Vestfjörðum með staðsetningu á Ísafirði og það er fyllilega ástæða til að standa á bak við þá með því að þetta starf komist í gang.

Reynslan hefur sýnt að litlar stofnanir í sterkum og nánum tengslum við umhverfi sitt eins og litlir háskólar sem þessi geta starfað vel. Það er mjög brýnt fyrir þennan væntanlega háskóla að fá fjárlagalið, fá eigin kennitölu á fjárlögum til að geta haldið áfram að byggja sig upp og starfa. Það hefur verið ein meginkrafa Ísfirðinga og Vestfirðinga nú á síðari missirum að fá að stofna sinn eigin háskóla sem tengdist auðlindum og möguleikum þess byggðarlags. Því leggjum við til að þingheimur samþykki það að veita þeim þennan stuðning.