131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:19]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um að sett verði aukið fé til framhaldsskólanna, og væri ekki vanþörf á. Það eru engir eðlilegir stjórnunarhættir að láta framhaldsskólana vera með uppsafnaðan vanda árum saman og ég held að rétt væri fyrir hv. þingmenn að muna að þegar kemur að afgreiðslu fjáraukalaga á næsta ári þarf örugglega að taka á þessum vanda. Það á að taka á þeim vanda sem fyrirséður er í fjárlögunum og þess vegna er það hrein sýndarmennska ef það á að afgreiða þetta með þeim hætti að það vanti tugi og hundruð milljóna til þess að reka framhaldsskólana.