131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:20]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað undanfarið að nemendum á framhaldsskólastigi hefur fjölgað og auk þess hefur skólunum tekist að minnka brottfall verulega. Samfylkingin og aðrir flokkar stjórnarandstöðunnar telja því sýnt að veita þurfi meira fjármagn til framhaldsskólanna til að koma til móts við og standa straum af kostnaði vegna þessarar ánægjulegu þróunar, auk þess sem við teljum að hætta eigi því sem verið hefur undanfarið, að láta skólana engjast í fjárskorti og láta þá vera fastagesti á fjáraukalögum ár eftir ár.