131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:24]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér greiðum við atkvæði um tillögu sem gerir ráð fyrir því að settar verði 20 millj. kr. í það að undirbúa eitt af höfuðsöfnum þjóðarinnar sem samkvæmt lögum á að vera Náttúruminjasafn Íslands. Frá því að safnalögin nýju voru sett hefur ekki verið settur neinn peningur í það að undirbúa stofnun þessa safns.

Nú er nýkomin út skýrsla frá Ríkisendurskoðun sem greinir frá því hvernig staðan er hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í dag og hún er vægast sagt bágborin. Sýningaraðstaðan kúrir enn í tveimur sýningarherbergjum á tveimur hæðum í afar óhentugu húsnæði uppi við Hlemm. Vísindasafnið er í afar óhentugu húsnæði líka í geymslum í kjöllurum, bæði sunnan heiða og norðan. Það er sannanlega orðið mál að linni og almennileg bragarbót verði gerð í þessum efnum. Náttúrufræðistofnun Íslands er búin að vera í tæplega hálfa öld í bráðabirgðahúsnæði. Hún á það inni hjá Alþingi Íslendinga að við setjum núna fjármuni í Náttúruminjasafn Íslands.