131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:27]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það hefur gengið á ýmsu í áranna rás við úthlutun heiðurslauna listamanna. Þó hefur held ég alltaf verið virt sú sjálfsagða regla að reynt sé að ná samstöðu um málið á Alþingi þvert á skurðlínur flokka og landamæri stjórnar og stjórnarandstöðu. Þessi hefð er nú rofin. Stjórnarmeirihlutinn í menntamálanefnd var búinn að ganga frá þessu máli þegar það kom til afgreiðslu í nefndinni. Tillögumenn eru því aðeins þeir hv. þm. sem smalað var saman til að mynda meiri hluta í nefndinni á fimmtudagskvöldið en ekki við sem sitjum í menntamálanefnd fyrir stjórnarandstöðuflokkana.

Ég harma það að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skuli hafa kosið að láta þennan skugga bera á veitingu heiðurslauna til fjögurra nýrra manna í þessum hópi en til að sýna því ágæta listafólki þá virðingu sem skylt er segi ég þó að þessu sinni já.