131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:31]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu vill minni hluti nefndarinnar hafa með þær tillögur að gera sem honum er ætlað að standa að. Um það snýst þetta mál. Á hverju ári eru margir kallaðir þegar kemur að því að veita heiðurslistalaun Alþingis og styð ég eindregið að slík laun séu veitt. Hins vegar skortir reglur og viðmið til að þeir hlutir geti gengið í gegn nokkuð eðlilega, enda kemur mikill fjöldi valinkunnra listamanna augljóslega til greina á hverju einasta ári.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp um þetta mál frá hv. þm. Merði Árnasyni þannig að þau mál gætu horft til betri vegar á næstunni. En við komum að þessu sinni, fulltrúar minni hlutans í menntamálanefnd, að gerðum hlut. Við styðjum eindregið þau nöfn sem þar eru og greiðum því tillögunni atkvæði okkar en við fengum ekki að hafa um það að segja frekar hvernig þessu máli var háttað. Það eru óviðunandi vinnubrögð, þau eru ólýðræðisleg og við hörmum að svo sé að máli staðið og hvetjum formann og aðra nefndarmenn eindregið til að standa öðruvísi að á næsta ári. Við tillögunni segi ég engu að síður já.