131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:39]

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Árás ríkisstjórnarinnar á Mannréttindaskrifstofu Íslands hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana. Með afgreiðslu sinni á stofnuninni hefur ríkisstjórnin skapað sér tortryggni allra virtustu samtaka á sviði mannréttinda í okkar heimshluta. Við sjáum það á öllum þeim skeytum sem rignir yfir þingmenn þessa dagana, nú síðast frá biskupnum yfir Íslandi.

Þetta er undarleg ráðstöfun, ekki síst í ljósi umsóknar ríkisstjórnar Íslands um setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það auðveldar varla hæstv. utanríkisráðherra það verk að hafa nú eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna með mannréttindum á bakinu. Ég held að þingmenn ættu að auðvelda honum frekar það verk ef menn meina eitthvað með því að sækja um aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og segja já hér, hv. stjórnarþingmenn. Ég segi já.