131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[11:46]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Alþingi Íslendinga ber öðru fremur að standa vörð um tjáningarfrelsið. Það tjáningarfrelsi hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands nýtt og sem betur fer hefur mannréttindabarátta á Íslandi eflst. Mikilvægir dómar hafa náðst, m.a. gegn ríkisstjórn Íslands og slæm mál frá henni hafa verið stöðvuð á síðustu árum. Það truflar stjórnarherrana. Lítt dulin skilaboð felast í þeirri ógnun að svipta Mannréttindaskrifstofuna fjárveitingu og það er árátta hv. formanns Sjálfstæðisflokksins að vilja leggja niður stofnanir, svipta frjáls félagasamtök innheimtu hjá ríkissjóði eða svipta Mannréttindaskrifstofuna sjálfstæðum fjárveitingum. Slíkar athafnir forustumanna í stjórnmálum gegn lýðræðislegri umræðu eru hneyksli og stjórnarþingmönnum sem hér taka þátt í atkvæðagreiðslu til minnkunar. Ég segi já.