131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:05]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er á ferðinni tillaga sem við formenn stjórnarandstöðuflokkanna flytjum sameiginlega sömuleiðis um að barnabætur hækki þegar á næsta ári um 2,4 milljarða kr. Það er tvímælalaust það jákvæðasta sem fólgið er í skattatillögum ríkisstjórnarinnar að hefja nú að skila til baka þeim skerðingum barnabóta og draga úr þeim óhóflegu tekjutengingum þeirra sem sú hin sama ríkisstjórn hefur staðið fyrir á undanförnum kjörtímabilum. Við teljum hins vegar að þessar tillögur eigi að koma til framkvæmda strax en ekki geyma þær þangað til á síðari hluta kjörtímabilsins og leggjum það því til. Það er verulega í áttina, til baka til þess fyrirkomulags sem var áður en óhóflegar tekjutengingar og skerðingar barnabóta hófust á 10. áratugnum að samþykkja þessa tillögu.