131. löggjafarþing — 49. fundur,  4. des. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[12:22]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kraftur í íslensku hagkerfi og því ber að fagna. Þess vegna var mikilvægt að ríkisstjórnin vandaði mjög afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2005 en því miður, eins og hér hefur komið fram, eru forsendur fyrir fjárlögum brostnar. Ég er sammála hv. varaformanni fjárlaganefndar og Seðlabanka Íslands um að forsendurnar eru brostnar.

Það sem vekur einnig sérstaka athygli í þessu frumvarpi er að skattar hafa verið hækkaðir um 8 milljarða en nú stendur fyrir dyrum að lækka þá um 4. Þó tekur steininn úr í þessu, virðulegi forseti, þegar hæstv. heilbrigðisráðherra hvetur öryrkja til að halda áfram kjarabaráttu sinni, væntanlega fyrir dómstólum, á sama tíma og verið er að leggja milljarð í að berjast fyrir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það er nokkuð ljóst hver forgangsröðin er hjá þessari ríkisstjórn, virðulegi forseti. Ég greiði ekki atkvæði.