131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:32]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna ummæla sem hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra viðhafði í Kastljóssþætti í gærkvöldi um aðdraganda þess að nafn Íslands birtist á lista yfir hinar vígfúsu eða viljugu þjóðir í Íraksstríðinu. Hæstv. utanríkisráðherra lét ítrekað, a.m.k. þrisvar sinnum, að því liggja að það mál sem slíkt hefði verið rætt áður í utanríkismálanefnd og á Alþingi. Hæstv. ráðherra sagði m.a. að það lægi náttúrlega alveg fyrir að þetta mál hefði verið margrætt á Alþingi og rætt í utanríkismálanefnd. Aðspurður hvort ekki hefði verið hægt að standa að þessu með öðrum hætti og fara leiðina í gegnum þingflokk, ríkisstjórn og að ræða málið á Alþingi svaraði fyrrverandi utanríkisráðherra aftur: „Ég meina, sko, þetta var margrætt á Alþingi, þetta var margrætt í utanríkismálanefnd.“ Og í þriðja sinn var viðbára hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra sú: „Jú, það var rætt á Alþingi og það var hérna rætt í utanríkismálanefnd.“

Það er afar ósvífið og einfaldlega alrangt að halda því fram að uppáskrift Íslands að innrásinni í Írak án undangenginnar áyktunar, sérstakrar ályktunar í öryggisráðinu, hafi nokkurn tímann verið rædd í utanríkismálanefnd eða á Alþingi áður en nafn Íslands birtist á hinum víðfræga lista. Allt frá því haustið 2002, gegnum janúar 2003, febrúar og svo seint sem 17. mars 2003 var hin yfirlýsta afstaða utanríkisráðherra fyrir hönd Íslands að það bæri að gefa vopnaeftirlitinu í Írak meiri tíma og það þyrfti nýja ályktun í öryggisráðinu ef til aðgerða ætti að koma. Ályktun 1441 dygði ekki í þeim efnum.

Það er fyrst 19. mars, þegar nafn Íslands hefur birst vestur í Washington, sem utanríkisráðherra snýr við blaðinu. Það var farið gegnum öll viðtöl, allar umræður á Alþingi sem og í utanríkismálanefnd og það var aldrei gefið í skyn að til stæði að Ísland styddi þetta ólögmæta árásarstríð með þeim hætti sem síðar varð raunin.