131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:41]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er algjörlega óviðunandi og ófyrirgefanleg vinnubrögð að tveir hv. þm. og hæstv. ráðherrar hafi tekið sér það vald að taka svo umdeilda og viðamikla ákvörðun eins og þá að setja Ísland á þann lista sem studdi innrásarstríðið í Írak. Það er algjörlega ófyrirgefanlegt. Til þess höfðu þeir enga heimild. Þeim bar að hafa samráð við þing og við fleiri um það en þeir gerðu. Það er eiginlega algjörlega með ólíkindum að ekki skuli fleiri hv. stjórnarliðar í þinginu hafa andmælt þessu vinnulagi en einn, kannski einn til í mesta lagi. Mér finnst það algjörlega með ólíkindum, virðulegi forseti.

Ég vil líka segja að það er merkilegt að heyra yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra þegar hann lýsir yfir mikilvægi þess að breyta stjórnarskránni með það í huga að efla þingið eins og fréttir í gær gáfu til kynna. Framganga hans sem utanríkisráðherra í Íraksmálinu gagnvart sínum eigin þingflokki, hv. utanríkisnefnd og þinginu ber því miður ekki vott um að þar fylgi hugur máli.