131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:51]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Kjarni þessa máls er það sem hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan. Íraksmálið var rætt í þaula í þinginu áður en til innrásarinnar kom. Íraksmálið kom æ ofan í æ til umræðu í utanríkismálanefnd Alþingis.

Þegar við förum yfir þessar umræður og það sem við heyrum úr þeim, í þeim ívitnuðu orðum sem hv. þm. hafa verið að vitna til hér í umræðunum, er alveg ljóst að þessi mál voru rædd frá öllum hliðum, m.a. sá möguleiki að efnt yrði til innrásarinnar. Það er ekki hægt að segja að þessi mál hafi verið umræðulaus. (Gripið fram í.) Þessi mál voru hér ítarlega rædd og það getur vel verið, og það vitum við, að um þessi mál var síðan ágreiningur. (Gripið fram í: … utanríkisráðherra.) Þessi mál voru samt rædd og það var auðvitað þannig að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra á þeim tíma eins og núna vissu vitaskuld vel hver afstaða þingsins var í þessum efnum. Það liggur þá auðvitað fyrir að stjórnarmeirihlutinn tekur hina pólitísku ákvörðun í þessu máli eins og vera ber. (Gripið fram í.) Auðvitað er það síðan stjórnarmeirihlutinn sem ber ábyrgð í þessu máli. Efast einhver um það að stjórnarmeirihlutinn hafi haft eða hafi meiri hluta á bak við sig í þessum efnum? Það liggur auðvitað krítarklárt fyrir.

Síðan segja menn núna: Ja, við vorum óskaplega mikið á móti þessari innrás en við erum hins vegar óskaplega jafnmikið með því að styðja uppbygginguna. Hvernig átti það nú að gerast? Menn voru á móti innrásinni en ætluðu síðan (Gripið fram í.) að fara að styðja einhverja uppbyggingu. Hvar átti það að gerast? Í skjóli Saddams Husseins sem liggur nú fyrir að ekki mátti hrófla við, sem vinstri grænir vildu verja sérstaklega (Gripið fram í.) með því að koma í veg fyrir það að hann yrði beittur viðskiptaþvingunum þannig að hægt væri að koma honum frá völdum? Forsendan fyrir því að hægt yrði að fara í þessa uppbyggingu var sú að harðstjóranum yrði ýtt frá völdum. Það er athyglisvert að þeir þingmenn sem hér hafa komið upp og hafa verið spurðir hvernig þeir hefðu viljað standa að þessu þegja. Þeir þegja (Gripið fram í.) og þögnin þeirra segir (Forseti hringir.) meira en mörg orð (Gripið fram í.) og hún er farin að vera vandræðaleg fyrir þá. (Gripið fram í: Við fáum ekki orðið.)