131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:54]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Kjarninn í þessari umræðu hlýtur að vera þessi: Hvernig er ákvörðun tekin um það þegar lýðveldið Ísland fer með ófriði á hendur öðrum fullvalda ríkjum? Sá hlýtur að vera kjarninn í þessari umræðu og menn hljóta að skoða hvernig þessi ákvörðun var tekin. Það eru ekki mörg lagaákvæði um það hvernig þetta skuli gert en það segir þó í þingsköpum um utanríkismálanefnd að öll meiri háttar mál skuli ræða í utanríkismálanefnd áður en ákvarðanir eru teknar. Það er alveg kristaltært.

Hér hefur hins vegar komið fram, og hæstv. forsætisráðherra staðfesti það í gær, að einungis tveir ráðherrar virðast hafa talað saman um það að segja öðru fullvalda lýðveldi stríð á hendur. Þetta er slíkt fordæmi, virðulegi forseti, að það hlýtur að þurfa að kanna þetta miklum mun betur. Þetta getur ekki verið fordæmi inn í framtíðina. Það getur ekki verið fordæmi að við tökum með þessum hætti ákvörðun um að styðja árásarstríð, það getur ekki verið. Það hlýtur að þurfa að ræða þetta á þinginu, það hlýtur að þurfa að ræða þetta í ríkisstjórn og það hlýtur að þurfa að ræða þetta í utanríkismálanefnd áður en ákvörðun er tekin. Sú ákvörðun á þá að vera undir í umræðunni en ekki ákvörðun um það hvað hugsanlega kann að gerast í framtíðinni.

Þetta er kjarnaatriðið og eins og fram hefur komið hjá hæstv. forsætisráðherra virðist vera ljóst að við höfum lýst yfir stuðningi við hernað á hendur öðru fullvalda ríki þannig að einungis tveir hæstv. ráðherrar hafa tekið þessa ákvörðun, jafnvel einn. Þetta er algerlega óásættanlegt, virðulegi forseti, og við hljótum að gera þá eðlilegu kröfu að farið verði ofan í þessa ákvörðunartöku, líkt og önnur þjóðþing í Evrópu hafa gert. Þetta er ekki mikil krafa en hún er lýðræðisleg og hún er eðlileg við þessar aðstæður.