131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Ummæli forsætisráðherra í sjónvarpinu.

[13:56]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Tilefni þessarar umræðu af minni hálfu nú eru ósvífnar tilraunir hæstv. forsætisráðherra í sjónvarpsþætti í gærkvöldi til að láta að því liggja að þetta mál hafi verið margrætt í utanríkismálanefnd Alþingis áður en nafn Íslands birtist á listanum. Það að ræða almennt um málefni Íraks vikum og mánuðum fyrir 19. mars 2003 jafngildir að sjálfsögðu ekki því að bera undir utanríkismálanefnd þá ákvörðun sem slíka að setja nafn Íslands á lista yfir þær þjóðir — sem gera hvað? Styðja ólögmætt árásarstríð á fullvalda þjóð á upplognum forsendum. Það var það sem gerðist.

Það var aldrei rætt í utanríkismálanefnd. Ég er með fundargerðirnar hér í höndunum og það er rangt af formanni utanríkismálanefndar að gefa það í skyn að á fundinum 19. febrúar hafi utanríkisráðherra gefið neitt í þá átt í skyn. Hann gaf hið gagnstæða í skyn og sagði: Það er mikilvægt að vopnaeftirlitið fái meiri tíma. Og hann sagði: Ég bind vonir við að samstaða náist í öryggisráðinu um nýja ályktun.

Svo mikið ætla ég að upplýsa hér og ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að létta trúnaði af fundargerðinni af sinni hálfu þannig að þetta megi lesa upp svart á hvítu.

Þetta var brot á 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, um samráðsskyldu ríkisstjórnar við utanríkismálanefnd um meiri háttar utanríkismál. Það er ósvífið að gefa annað til kynna, jafnvel þó að menn séu í nauðvörn með vondan málstað í sjónvarpsþætti. Reyndir menn í pólitík eiga að kunna meira en það að fara, ekki einu sinni, heldur þrisvar út af sporinu eins og hæstv. ráðherra gerði þarna hvað sannleikann varðar.

Ég er síðan farinn að halda að það sé ekki rétt mat hjá okkur stjórnarandstæðingum að tveir menn hafi tekið þessa ákvörðun. Ég held að bara einn maður hafi tekið ákvörðunina, Davíð Oddsson, (Forseti hringir.) sem síðan hafi hringt í Halldór Ásgrímsson og sagt honum hvernig þetta ætti að vera, (Forseti hringir.) sem lét það yfir sig ganga eins og annað. (Gripið fram í: Auðvitað.)