131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[14:09]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að athuga þurfi það sérstaklega, ef hæstv. forseti túlkar það svo og þeir sem stýra hinu háa Alþingi á þessu herrans ári líti svo á að hæstv. ráðherrar séu undanþegnir þingskapalögum þegar hreinn og klár texti þingskapanna tekur fram hversu oft þeir megi tala eins og aðrir þingmenn. Ég mótmæli þessari túlkun og held að hæstv. forseta væri meiri sæmd af því að viðurkenna að hann hafi gert mistök með því að leyfa hæstv. ráðherra að tala þrisvar, væntanlega á kostnað annarra í umræðunni, því ef hæstv. ráðherra má tala eins oft og hann vill er ég ansi hrædd um að endurskoða þurfi þann tíma sem gefinn er til umræðu sem þessarar. Ég mótmæli því þessari túlkun hæstv. forseta. Hafi þetta verið framkvæmt svona áður er það beinlíns rangt og í andstöðu við þingsköp og stjórnarskrá.