131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[14:13]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst hvetja menn til þess að bíða aðeins með stóryrðin í málinu, vegna þess að hæstv. forseti hefur kveðið upp úrskurð sinn á efnislegum grundvelli. Það getur vel verið að menn greini á um hann en hæstv. forseti hefur engu að síður rökstutt mál sitt mjög vel, bæði með skírskotun til þingskapaákvæða og einnig til stjórnarskrárinnar. Hann hefur vakið athygli á því að til séu fordæmi í málinu sem styrki úrskurð hans í þessum efnum og ég hef ekki heyrt menn draga það í efa.

Hins vegar getur vel verið að menn hafi um þetta ólíkar skoðanir, en er þá ekki skynsamlegt að við skoðum málið til hlítar við betri aðstæður í stað þess að vera með einhver stóryrði eins og hafa heyrst, sérstaklega utan úr sal frá einstökum mönnum sem hafa blandað sér í umræðuna með þeim hætti sem er farið að tíðkast mjög í þessum sal.

Ég vil sérstaklega víkja máli mínu til hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem, eins og fyrri daginn þegar verið er að ræða svona mál, hreykir sér mjög hátt. (Gripið fram í.) Talar niður til annarra þingmanna og með þeim hætti að svona eigi menn ekki að tala. Það sé allt öðruvísi sem menn eigi að tala. Ég segi það í mestu vinsemd að ég kann því óskaplega illa að sitja undir slíkum umræðum. Umræðurnar hafa auðvitað farið um víðan völl eins og eðlilegt er þegar rætt er um mál af því tagi sem Íraksmálið er. Það er því ekkert óeðlilegt þegar verið er að ræða þessi mál og allar hliðar þess að þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, reyni að velta upp þeim flötum sem miklu máli skipta. Þess vegna kann ég því ákaflega illa þegar hv. þingmaður þykist hafa til þess burði og vald og stöðu að tala niður til þingmanna eins og hv. þingmaður gerði í ræðu sinni og er svo sem ekkert nýjabrum af. (Gripið fram í.)