131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[14:15]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Já, það er nefnilega full ástæða til að ræða um fundarstjórn forseta núna því að úrskurður hans hvað varðar þessa þriðju ræðu hæstv. forsætisráðherra hér áðan, sem hann hafði auðvitað mikla þörf fyrir að fá, var ekki upp á marga fiska, finnst mér. (Gripið fram í: Ræðan?) Ja, bæði ræðan og líka úrskurður forseta. Ef þessi úrskurður forsetans gæti staðist mundu engar aðrar þingskapareglur um umræður þar sem ráðherrar eiga að taka þátt standast heldur. Þá gætu þeir bara komið í þær umræður eins oft og þeim sýndist og hvernig sem þeim svo sem dytti í hug. (Gripið fram í.) Það er gjörsamlega út í hött að það sé hægt að velja eitthvert eitt umræðuform hér og segja: Jú, það er hægt að bæta inn í hérna einhverjum ræðum frá ráðherrum, bara þegar mönnum dettur það í hug. Það væri slæmt fordæmi. Þó að hæstv. aðalforseti þingsins, Halldór Blöndal, hafi kannski gefið mönnum orðið of oft finnst mér það ekki vera fordæmi fyrir því að aðrir forsetar þingsins (Gripið fram í.) geri það líka. Mistök geta alltaf átt sér stað og hafa auðvitað átt sér stað í sölum Alþingis.

Mér finnst þetta vera mál sem menn þurfa að skoða og tek undir það sem sagt var hér áðan, svona með ró í huganum, en niðurstaðan finnst mér vera augljós: Hæstv. ráðherrar hljóta að verða að hlíta sömu þingskapareglum og aðrir þingmenn hér í salnum við allar umræður. Það er auðvitað óþolandi annað en að þannig sé að málum staðið.

(Forseti (BÁ): Sá forseti sem hér stendur vill láta þess getið að ekki mun hann standa í vegi þess að þetta verði rætt í forsætisnefnd.)