131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[14:21]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get stytt mál mitt því að hv. síðasti ræðumaður sagði mikið af því sem ég vildi segja. Ég held að þó að hæstv. forseti uppfræði okkur um það, sem við nú sjálfsagt vitum, að ráðherrar hafi málfrelsi og tillögurétt á þingi, hvort sem þeir eru kjörnir þingmenn eða ekki, sé engu að síður ljóst að stjórnarskrárákvæðin vísa til þingskapanna og þau taka síðan af skarið í mjög mörgum tilvikum. Ég hef aldrei heyrt að til stæði að túlka þetta ákvæði stjórnarskrárinnar þannig að það ýtti beinlínis til hliðar pósitífum ákvæðum þingskapalaga sem algerlega ramma af rétt ráðherra til umræðna hér í mjög mörgum tilvikum.

Mér býður í grun að hér sé sá misskilningur að þvælast fyrir mönnum, forseta og sérfræðingum hans, að það hafi borið við að menn hafi hneigst til frjálslegrar túlkunar á möguleikum ráðherra til að tala oftar en tvisvar í ótímabundnum umræðum um þingmál ef þeir væru að því spurðir. Það er allt annar hlutur en að ráðherrar hafi ríkari rétt en aðrir þingmenn í tímabundinni og algerlega afmarkaðri umræðu, t.d. þegar menn eru að takast á um gagnstæð sjónarmið. Það er algerlega á móti anda þingskapanna um jafnræði milli manna við slíkar aðstæður að t.d. ráðherrann hafi ríkari rétt en málshefjandi, segjum bara í hálftímaumræðu, að ráðherrann mætti tala þrisvar en málshefjandinn bara tvisvar. Það hefur aldrei hvarflað að neinum manni, aldrei.

Ég tel að nákvæmlega hið sama gildi um þessa umræðu sem er eðli málsins samkvæmt þannig römmuð af að engan veginn gengur að ráðherrann færi að tala þrisvar eða fjórum eða fimm sinnum, vera annar hver ræðumaður. Hvernig ætti það að geta verið? Hvert væri þá jafnræðið sem væri tryggt með aðilum sem ættu skoðanaskipti í viðkomandi máli?

Hér er einhver misskilningur á ferð sem ég held að hljóti að upplýsast og leiðréttast þegar menn fara yfir þetta í rólegheitum og skoða, eins og nú hefur verið lofað að gert verði í forsætisnefnd. Þá tel ég að ekki þurfi að ræða um þetta frekar.