131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Mælendaskrá í athugasemdaumræðu.

[14:23]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hygg, án þess að það sé ljóst, að sú stjórnarskrárgrein sem vitnað var til sé sett vegna þess að ekki er endilegt að ráðherrar séu þingmenn. Þar með þarf að veita þeim rétt til að vera á þinginu þó að þeir séu ekki kosnir á það, standa þar fyrir máli sínu og tala með málum sínum. Þess vegna er þetta sett inn. Síðan er þetta að sjálfsögðu takmarkað með því að bent er á þingsköp.

Þetta er nokkuð ljóst og ég held að það væri heiðarlegast og affarasælast fyrir forseta að viðurkenna strax að þessi úrskurður hafi verið hæpinn, ef ekki beinlínis rangur. Við skulum þá gera það á móti, þingmenn, að fyrirgefa ráðherranum að hafa talað þrisvar því að hann var með það vondan málstað að honum veitti ekki af.