131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:24]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um afnám laga nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er lagt fram í tilefni af fyrirhugaðri sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Sameining þessara skóla byggist á viljayfirlýsingu menntamálaráðherra, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Verslunarráðs Íslands um stofnun einkahlutafélags sem tekur við starfsemi Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík, dags. 19. október 2004.

Vegna frumvarps þessa tel ég rétt að minna í framsöguræðu minni á að hugmyndir um að sameina Tækniskóla Íslands, sem var fyrirrennari Tækniháskólans eins og menn vita, Háskólanum í Reykjavík hafa oftar en einu sinni verið til meðferðar í menntamálaráðuneytinu. Þannig voru ítrekaðar tilraunir gerðar til að sameina Tækniskólann og verkfræðideild Háskóla Íslands. Allar strönduðu þær á ágreiningi milli hinna ýmsu hagsmunaaðila er tóku þátt í þeirri skoðun. Nefndarálit um þetta efni voru m.a. unnin á áttunda áratugnum án þess að verulegar breytingar næðu fram að ganga. Síðan var gerð alvarleg tilraun með starfi nefndar á vegum menntamálaráðuneytisins árin 1995–1996. Komst hún ekki að sameiginlegri niðurstöðu en formaður hennar skilaði ráðuneytinu ítarlegri greinargerð.

Segja má að sú aðferðafræði sem viðhöfð var, að láta alla hugsanlega hagsmunaaðila koma að undirbúningi máls frá upphafi og verja sérhagsmuni sína, hafi sýnt að nauðsynlegt var að leita annarra leiða til að ná fram því markmiði að efla nám á þessu sviði. Tilraunir ráðuneytisins sem gerðar voru 2000–2001 til að semja við hagsmunaaðila atvinnulífsins um aðkomu að rekstri Tækniskóla Íslands og tryggja þar með styrkari tengsl atvinnulífs og menntunar runnu út í sandinn þar sem ekki tókst að finna sameiginlegan grundvöll varðandi fjármögnun nýs tækniháskóla sem báðir aðilar gátu sætt sig við.

Sú mikla gróska sem orðið hefur á háskólastiginu á undanförnum árum, m.a. með því að nýir háskólar hafa verið settir á stofn, hefur að mínu mati jafnvel falið í sér mun meiri framfarir á háskólastiginu en menn gerðu sér almennt grein fyrir. Samkeppni um nemendur og námsframboð tel ég að hafi fyrst og fremst leitt af sér aukið frumkvæði innan háskólastofnananna, samkeppnin hefur kallað á ríkari kröfur til þeirra og allt þetta hefur leitt til þess að háskólarnir allir hafa styrkst verulega. Er m.a. komið inn á þetta í ágætri grein dr. Harðar Arnarsonar sem fjallar um sameiningu þessara háskóla í Morgunblaðinu í dag en þar ítrekar Hörður að þessi sameining fjölgi valkostum, samkeppnin líka, hún hafi aukið fjölda nemenda í háskólanámi, fjölbreytni náms og gæði. Þetta er maður sem kann afskaplega mikið fyrir sér og þekkir atvinnulífið allt mjög vel.

Það er samt alveg rétt að alltaf má gera betur og ég tel rétt, til að styrkja háskólastigið enn frekar, að skoða vel kosti þess að sameina þær sterku einingar sem hér hafa myndast og styrkja þannig háskólana sem rekstrareiningar án þess þó að dregið sé úr samkeppni á milli þeirra. Því leitaði ég til núverandi rektora Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík síðasta vor og þær lýstu sig þegar reiðubúnar til að kanna möguleika á samvinnu og síðar sameiningu þessara öflugu skóla.

Fljótt kom í ljós að mikill áhugi var á sameiningu og í framhaldi af því átti ráðuneytið frumkvæði að því að kynna þessa hugmynd fyrir Verslunarráði Íslands, Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins sem tóku vel í hugmyndina.

Það er staðfest skoðun mín að samkeppni milli háskóla sé af hinu góða og vænleg leið til að tryggja gæði menntunarinnar. Tilkoma hins nýja tækni- og verkfræðiháskóla er líkleg til að auka áhuga ungs fólks á tæknimenntun og styrkja þannig framþróun og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að hinn sameinaði háskóli taki formlega til starfa í síðasta lagi í júní 2005. Háskólinn mun bjóða nám til BA-, BS- og diplóma-prófs í þeim greinum sem Tækniháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík hafa boðið upp á. Auk þess er að því stefnt að stofnaðar verði nýjar deildir á fyrsta starfsári skólans í kennslufræði og verkfræði. Þá verður í boði við skólann sérhæft undirbúningsnám sambærilegt námi við frumgreinadeild Tækniháskóla Íslands. Mikilvægt er að því námi verði vel við haldið.

Það er rétt að árétta að námsframboð í hinum sameinaða skóla mun í öllum aðalatriðum felast í því námi sem skólarnir bjóða nú upp á hvor í sínu lagi. Sameiningin mun tvímælalaust styrkja nám á þeim sviðum þar sem um skyldleika er að ræða á milli fræðasviða, svo sem á sviði viðskiptagreina sem skólarnir hafa sinnt hvor um sig, og á sviði tæknigreina, svo sem tölvunarfræða sem kennd hafa verið við Háskólann í Reykjavík, en þær falla vel að áformum um uppbyggingu tækni- og verkfræði.

Í tengslum við sameininguna hefur einnig gefist tækifæri að íhuga það hvort eitthvað af því námi sem skólarnir hafa sinnt eigi ef til vill heima annars staðar.

Menntamálaráðuneytið hefur haft forgöngu um að skoða sérstaklega hvort skynsamlegt sé að flytja heilbrigðisgreinar sem Tækniháskóli Íslands hefur sinnt til Háskóla Íslands og er það mat ráðuneytisins að margt mæli með því að sá flutningur eigi sér stað áður en til eiginlegrar sameiningar kemur. Í gangi eru viðræður menntamálaráðuneytisins, Háskóla Íslands og stjórnar hins sameinaða skóla um að nám í meinafræði og geislafræði verði eftirleiðis kennt við Háskóla Íslands. Er niðurstöðu um það að vænta á allra næstu vikum. Hefur ráðuneytið lagt á það áherslu að slík breyting raski í engu námsframvindu þeirra sem þegar hafa hafið nám í þessum greinum við Tækniháskóla Íslands og eins hitt að greinunum sé að sjálfsögðu tryggilega fyrir komið innan Háskóla Íslands.

Vegna starfsemi frumgreinadeildar í Tækniháskóla Íslands vil ég sérstaklega benda á að í viðræðum ráðuneytisins og stofnenda hins sameinaða háskóla hefur komið fram að ekki standi til að innheimta skólagjöld vegna námsins sem ætlunin er að bjóða upp á sambærilegt því sem nú er í Tækniháskóla Íslands. Eðli málsins samkvæmt fjallar frumvarp þetta ekki um frumgreinadeildina, enda er ekki fjallað um hana í gildandi lögum um Tækniháskóla Íslands þar sem ekki er um að ræða nám á háskólastigi. Um frumgreinadeildina var hins vegar fjallað í greinargerð frumvarps til laga um Tækniháskóla Íslands þegar hann var færður upp á háskólastig. Frumvarp þetta fjallaði einungis um afnám þeirra laga en stofnun hins sameinaða skóla byggir ekki á sérlögum heldur rammalögum um háskóla sem nú eru í gildi.

Í samræmi við framangreint gerir 1. gr. frumvarpsins ráð fyrir að núgildandi lög um Tækniháskóla Íslands verði felld úr gildi. Jafnframt tryggir ákvæðið rétt þeirra nemenda sem eru nú í námi við Tækniháskóla Íslands á þann hátt að þeir eiga rétt á að ljúka námi samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi er og á sömu forsendum. Ákvæðið nær til nemenda sem eru við nám nú verði frumvarp þetta að lögum. Þá er áréttað að réttur þessi sé bundinn við gildandi reglur um námsframvindu. Einungis er við það miðað að þessi réttur nái til náms við hinn nýja háskóla sem verður til við sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Af því leiðir, og ég legg áherslu á það, að óheimilt er að innheimta skólagjöld af þeim nemendum vegna þess náms sem þeir hafa þegar hafið við gildistöku laga þessara.

Í 2. gr. frumvarpsins er áréttað að störf starfsmanna Tækniháskóla Íslands verði lögð niður um leið og lögin um skólann falla úr gildi og að um réttindi þeirra fari eftir ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Með því er vísað til réttar starfsmanna eftir atvikum til biðlauna og uppsagnarfrests, með þeim takmörkunum sem af því leiða. Þá er einnig kveðið á um í 2. gr. að flytjist kennari við Tækniháskóla Íslands til annars háskóla, verði frumvarp þetta að lögum, sé heimilt að byggja ráðningu hans á dómnefndaráliti sem hann hefur hlotið skv. 5. mgr. 3. gr. laga um Tækniháskóla Íslands í sömu eða sambærilegri fræðigrein. Ákvæðið á við um prófessora, dósenta eða lektora. Teljist viðkomandi hæfur á grundvelli slíks dómnefndarálits til að gegna stöðu prófessors, dósents eða lektors verður ekki séð að nauðsyn sé á öðru slíku áliti, auk þess sem mikilvægt er að hægt sé á sem skemmstum tíma að ráða prófessora, dósenta eða lektora sem starfað hafa við Tækniháskóla Íslands til hins sameinaða háskóla í framhaldi af niðurlagningu starfa þeirra, verði frumvarp þetta að lögum. Sama gildir samkvæmt ákvæðinu ráði kennari sig til starfa við annan háskóla en hinn sameinaða háskóla.

3. gr. frumvarpsins gerir ráð fyrir að frumvarp þetta, verði það að lögum, öðlist gildi 1. júlí 2005, en þá er við það miðað að hinn sameinaði háskóli hafi tekið formlega til starfa.

Virðulegi forseti. Ég tel að frumvarp þetta sé hluti af miklu framfaraskrefi á háskólastiginu hér á landi, við sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík verði til mjög öflugur háskóli sem mun á grunni þeirra skóla sem hann mun hefja starfsemi sína á bjóða upp á nám sem verður afar eftirsóknarvert. Í þessari sameiningu felst einnig ákveðin nýsköpun í skólakerfinu. Skólinn mun vaxa á komandi árum og stefnt er að því að nemendum við hann fjölgi á komandi árum en þær áætlanir eru innan þess ramma sem útgjöld til menntamála á komandi árum samkvæmt langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum leyfir.

Vitanlega mun viðgangur skólans þó fyrst og fremst ráðast af frammistöðu hans. Það á við um kennsluþátt starfseminnar jafnt sem rannsóknarþáttinn. Vísinda- og tækniráð hefur ályktað sérstaklega um eflingu rannsókna í háskólum og er til þess vonast að hinn sameinaði skóli taki þátt í sameiginlegu átaki sem nær til allra háskólastofnana í landinu til að skapa hér samfélag sem rís undir nafni sem vísinda- og þekkingarsamfélag.

Að sjálfsögðu mun hinn sameinaði skóli starfa í samræmi við rammalög um háskóla og sömu kröfur gerðar til hans og annarra háskóla. Starfsumhverfi það sem honum er búið af hálfu stjórnvalda er hliðstætt því sem stjórnvöld búa öðrum skólum á háskólastigi.

Vegna kostnaðarmatsins sem fylgir frumvarpinu, þar sem gerð er grein fyrir rekstrarhalla Tækniháskólans, vil ég taka það fram að núverandi stjórnendur skólans tóku við mjög erfiðri fjárhagsstöðu á árinu 2002 og eiga þau umframútgjöld sem urðu á því ári og árinu 2003 fyrst og fremst rætur að rekja til ófrágenginna fjárhagsmálefna og hagræðingar sem núverandi stjórnendur hafa unnið að með miklum ágætum. Er svo komið að horfur eru á að rekstur Tækniháskóla Íslands verði jákvæður fyrir rekstrarárið 2004 í fyrsta sinn í langan tíma.

Það er trú mín að við sameiningu skólanna muni verkfræði- og tæknifræðinám eflast enn frekar hér á landi og ég vil, virðulegi forseti, leyfa mér að vitna í þá ágætu grein sem ég minntist á fyrr í ræðu minni, grein sem dr. Hörður Arnarson, forstjóri Marels, ritaði í Morgunblaðið í gær. Þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Fram hefur komið að sameinaður háskóli Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík mun leggja mikla áherslu á tæknifræði og verkfræði. Fyrir Marel og önnur hérlend tæknifyrirtæki er þetta mikið fagnaðarefni.“

Svo mörg voru þau orð.

Ég er sannfærð um það, hæstv. forseti, líkt og margir aðilar innan atvinnulífsins að stofnun þessa öfluga háskóla muni verða háskólastarfinu í landinu til framdráttar, það mun efla atvinnulífið mjög til muna og fjölga tækifærum íslenskra ungmenna til framtíðar.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntamálanefndar og 2. umr.