131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:39]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þann áhuga sem hann sýnir málinu. Það er alla vega nýtt að stjórnarandstaðan sýni hinum sjálfstæðu háskólum athygli og sýni þeim einnig umhyggju í verki og orði í þessum ágæta ræðustól.

Ég vil enn og aftur undirstrika það sem ég hef sagt áður að við værum ekkert að ræða um sameiningu háskóla í landinu ef stefna til að mynda Samfylkingarinnar hefði fengið að ráða í háskólamálum, svo einfalt er það. (BjörgvS: Það er bara rangt …) Við værum ekki að ræða slíka grósku og slíka sameiningu sem við erum að gera hér með umræðu um þetta ágæta frumvarp.

Það er ekki rétt sem hér hefur komið fram að það sé fordæmislaust varðandi einkahlutafélag í háskólarekstri eða í menntakerfinu, því það er menntafélag sem hefur tekið að sér rekstur Stýrimannaskólans og Vélskólans og gerir það mjög kröftuglega og vel þannig að sómi er að. Ég vil líka undirstrika það, að ef einhver hagnaður kann að myndast m.a. í þessum stóra, nýja, sameinaða háskóla er skilyrt að allur sá ágóði rennur beint til uppbyggingar háskólastarfseminnar í skólanum þannig að það sé alveg á hreinu. Það er ekki verið að reka hér hlutafélag til þess að hafa fjárhagslega hagsmuni af því heldur munu þeir fjárhagslegu hagsmunir renna fyrst og fremst til uppbyggingar háskólastarfsins.