131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:42]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tel það ekki að ástæðulausu að hv. þingmaður þurfi sérstaklega að undirstrika að hann beri ákveðna umhyggju fyrir sjálfstæðu háskólunum. Það er rétt að það komi fram að hann þurfti sjálfur að undirstrika þá stefnu sína og það er ágætt og mikið fagnaðarefni að hann ásamt fleiri talsmönnum Samfylkingarinnar í menntamálum skuli loksins sjá ljósið þegar kemur að háskólamálunum.

Ég vil líka undirstrika að einkahlutafélagsformið sem tengist hinum sameinaða háskóla hefur skýr markmið í för með sér. Það eru félagsleg markmið og skólaleg markmið sem þetta einkahlutafélag hefur sett sér og allur sá ágóði sem hugsanlega kann að renna inn í þá starfsemi mun renna einmitt inn í háskólastarfsemina.

Varðandi það að búa til heildstæða úttekt er þetta viðtekin, ég ætla ekki að segja lumma, en dæmigerður frasi sem er notaður þegar á að drepa málum á dreif og menn þora ekki að taka stórar ákvarðanir til þess að efla og styrkja háskólanám. (BjörgvS: Er það skólagjaldið?)